Hver er uppruni orðsins "della", sbr. "kúadella"? Fyrirspurnin vaknar úr rannsókn á uppruna enska fyrirbærisins "dilly cart", sem í nokkrum héruðum Englands sem tilheyrðu Danalögum á miðöldum* var nafnið á ökutækinu sem notað var við tæmingu salerna, líka í þorpinu sem ég ólst upp í. "Dilly" var að vísu notað hér áður fyrr sem heiti hestvagna af ýmsu tagi, en það er víða útskýrt sem stytting af orðinu "diligence", almenningsfaratæki fyrri alda. Er hægt að finna tengsl milli orðanna "della" og "dilly" vegna úrgangsins sem þau tengjast bæði? * Það eru fleiri orð af norrænum uppruna notuð á þessu svæði sem eru nánast óþekkt í öðrum landshlutum.Orðið della ‘væta, blaut föt; klessa, sletta’ þekkist í íslensku máli frá 19. öld, til dæmis í samsetta orðinu kúadella ‘kúaskítur’. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989: 110) er upphafleg merking orðstofnsins ‘eitthvað dinglandi, dýjandi eða lint’ og bleytumerkingin er þaðan runnin. Ekki virðast því vera tengsl við enska orðið dilly sem spurt var um. Í enskri orðsifjabók Walter W. Skeat er sagt að dilly sé slangurorð ættað úr frönsku frá carrosse de diligence ‘póstvagn’.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. (Bókin er einnig aðgengileg að vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir Málið.is.
- Skeat, Walter W. A Concise Etymological Dictionary of the English Language. A Perigree Book. 12. útg. (1. útg. 1980). New York.
- Cow manure in a pasture - Chesapeake Bay Program - Flickr.com. Birt undir Creative Commons Attribution-NonCommercial 2.0 Generic (CC BY-NC 2.0 leyfi. (Sótt 4.7.2022).