Hvaðan kemur líkingin ,að standa á gati’? Samanber að geta ekki svarað spurningu.Orðasambandið standa á gati merkir ‘vera ráðalaus, geta engu svarað’. Einnig er notað vera á gati í sömu merkingu. Reka einhvern á gat er að spyrja einhvern um eitthvað sem hann getur ekki svarað. Öll samböndin þekkjast frá síðari hluta 19. aldar. Oftast tengist notkunin því að einhver er orðlaus og getur ekki svarað því sem hann er spurður um, til dæmis á prófi. Sögnin að gata ‘kunna ekki, geta ekki svarað spurningum, til dæmis kennara’ er dregin af gat í fyrrgreindri merkingu og gatisti er í skólamáli notað um þann sem getur ekki svarað spurningum kennara.
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. 2. útgáfa, aukin. Reykjavík.
- Mynd: Peta.org.uk. (Sótt 16.5.2022).