Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup?

Hjalti Hugason

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Hver var Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup? Var hann Englendingur eða norskur?

Lengst af hafa biskupar á Íslandi verið íslenskir menn. Þetta er í raun og veru langt frá því að vera sjálfsagt. Kaþólska miðaldakirkjan var alþjóðleg stofnun. Þrátt fyrir biskupskjör í einhverri mynd heima fyrir höfðu yfirþjóðleg kirkjuyfirvöld eftir atvikum staðfestingar- eða skipunarvald. Þeim hefði því verið í lófa lagið að senda hingað erlenda menn og líklega hefði á stundum ekki verið vanþörf á þegar dvergkirkjan norður í hafi sendi utan miður hæfa menn til vígslu sem vel gat gerst. Þegar einveldi var komið á í Danaveldi og kirkjan tengdist ríkinu í stöðugt vaxandi mæli hefði líka verið eðlilegt að konungur sendi hingað danskan eða dansk-þýskan biskup til að tengja íslenska kirkju og kristni við dönsku kirkjuna og koma henni í líkt horf og tíðkaðist nær þungamiðju ríkisins. En oft bar á því að íslenska kirkjan viki frá dönsku kirkjunni og væri gamaldags og sérkennileg miðað við það sem gerðist annars staðar í ríkinu. Meðal ástæðna fyrir því að útlendir biskupar voru ekki sendir hingað til þjónustu var ugglaust að biskupinn, yfirhirðir hinnar kristnu hjarðar, þurfti að skilja sauði sína og þeir urðu að skilja hann bæði hvað tungumál og menningu áhrærði

Ein tilraun var gerð í þessa veru á lútherskum tíma. Á fimmta áratugi átjándu aldar dvaldi Ludvig Harboe, þýskumælandi þegn Danakonungs, hér á landi í nokkur ára og fór með biskupsvald fyrst í Hólabiskupsdæmi og síðar báðum biskupsdæmum landsins. Hann hafði þó ekki biskupsvígslu og gegndi því ekki embættinu til fulls. Síðar varð hann biskup fyrst í Þrándheimi og síðar í Hróarskeldu og varð þar með „kirkjumálaráðherra“ konungs. Í kjölfar eftirlitsferðar hans hér voru gefin út fjölmörg lög og tilskipanir sem í raun komu á ríkiskirkju í landinu.

Á miðöldum horfði þetta öðru vísi við. Eftir dauða Guðmundar góða Arasonar (1201) var norskur maður vígður sem Hólabiskup. Þá hafði mikið upplausnarástand ríkt í biskupsdæminu og nauðsynlegt var að koma á fastari skipan. Á þessum tíma var íslenska höfðingjakirkjan sem verið hafði við lýði hér frá trúarbragðaskiptum að víkja fyrir kaþólskri miðaldakirkju með alþjóðlegra sniði. Erlend kirkjuyfirvöld hafa viljað hraða þeirri þróun. Milli Guðmundar góða um aldamótin 1200 og Jóns Arasonar um miðja sextándu öld sátu 18 biskupar á Hólum og voru 14 þeirra erlendir. Sama skipan komst ekki á í Skálholtsbiskupsdæmi fyrr en 120 árum síðar en frá 1321 til 1465 sátu 19 biskupar í Skálholti og voru aðeins tveir innlendir. Lengi var litið á skeið hinna erlendu biskupa sem niðurlægingartíma fyrir íslensku kirkjuna. Það mat hefur nú verið endurskoðað en vissulega ber að líta til þess að einhverjir þessara manna komu aldrei til landsins og aðrir kunna að hafa verið sendir hingað í refsingarskyni.

Marteinn páfi V., sem hér sést á mynd, skipaði Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup árið 1425. Craxton var enskur munkur, hugsanlega af norrænum ættum.

Jón Vilhjálmsson Craxton sem um er spurt var einn þessara erlendu biskupa. Hann var enskur munkur, hugsanlega af norrænum ættum, sem páfi skipaði Hólabiskup 1425 og var hann vígður árið eftir. Hann kom fyrst til landsins 1427 en náði þá ekki embætti sínu en tókst það í annarri tilraun tveimur árum síðar. Líta má á útnefningu Jóns biskups sem tímanna tákn en fimmtánda öldin (einkum 1415–1475) í sögu okkar kallast enska öldin vegna umsvifa Englendinga hér bæði á sviði verslunar og fiskveiða sem leiddu einnig til ýmissa félagslegra og menningarlegra samskipta.

Jón Vilhjálmsson sýndi af sér röggsama kirkjustjórn á ýmsum sviðum og stóð vörð um dómsvald kirkjunnar sem og eignarrétt hennar. Virðist hann hafa komið með fjölmennt fylgdarlið erlendis frá til að festa sig í sessi. Hann vildi þó líklega framfylgja valdi sínu á málefnalegan máta. Hefur meðal annars verið bent á að hann hafi ýmsum biskupum fremur gert sér far um að nefna bæði vígða og óvígða menn í dóma á vegum kirkjunnar. Athyglisvert er líka að hann gerði tilraun til að koma á svokölluðum dómkapítula (oft nefndur kórsbræðrasamkoma á íslensku) en það var hópur háklerka einkum við dómkirkjur sem voru biskupi til ráðuneytis við kirkjustjórnina, önnuðust hana þegar biskupslaust var og kusu nýjan biskup þegar þörf var á. Samkomur af þessu tagi störfuðu ekki í annan tíma hér svo vitað sé. Einnig virðist Jón hafa stuðst við samráð við prestastefnur og í heild rækt embætti sitt sköruglega og í góðu samræmi við kirkjulög. Geta má þess að Jón Vilhjálmsson beitti sér fyrir fjáröflun í biskupsdæmi sínu til að vinna að framgangi þess að helgi Guðmundar Arasonar yrði formlega viðurkennd í Róm.

Að kirkjulegum skilningi var biskup bundinn dómkirkju sinni og biskupsdæmi ævilangt. Er líða tók á miðaldir lét þó margt í kirkjukenningunni undan fyrir veraldlegri sjónarmiðum. Þegar Jón Vilhjálmsson hafði verið biskup á Hólum í áratug leysti páfi hann frá embættinu og gerði hann þess í stað að biskupi í Skálholti en það var eldra og víðlendara biskupsdæmi og hafði um margt forskot umfram Hóla. Hann hafði embættið þó aðeins með höndum í tvö ár og kom aldrei til landsins á þeim tíma. Dvaldi hann á Englandi við stöðugt þverrandi fjárhag og árið 1437 var embættið veitt hollenskum manni, Gozewijn (Goðsvin) Comhaer nafni.

Um Jón Vilhjálmsson Craxton má lesa í ýmsum ritum um íslenska miðaldasögu.

Mynd:

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

30.3.2022

Spyrjandi

Anne Drewery

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hver var Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup?“ Vísindavefurinn, 30. mars 2022, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83447.

Hjalti Hugason. (2022, 30. mars). Hver var Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83447

Hjalti Hugason. „Hver var Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup?“ Vísindavefurinn. 30. mar. 2022. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83447>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Hver var Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup? Var hann Englendingur eða norskur?

Lengst af hafa biskupar á Íslandi verið íslenskir menn. Þetta er í raun og veru langt frá því að vera sjálfsagt. Kaþólska miðaldakirkjan var alþjóðleg stofnun. Þrátt fyrir biskupskjör í einhverri mynd heima fyrir höfðu yfirþjóðleg kirkjuyfirvöld eftir atvikum staðfestingar- eða skipunarvald. Þeim hefði því verið í lófa lagið að senda hingað erlenda menn og líklega hefði á stundum ekki verið vanþörf á þegar dvergkirkjan norður í hafi sendi utan miður hæfa menn til vígslu sem vel gat gerst. Þegar einveldi var komið á í Danaveldi og kirkjan tengdist ríkinu í stöðugt vaxandi mæli hefði líka verið eðlilegt að konungur sendi hingað danskan eða dansk-þýskan biskup til að tengja íslenska kirkju og kristni við dönsku kirkjuna og koma henni í líkt horf og tíðkaðist nær þungamiðju ríkisins. En oft bar á því að íslenska kirkjan viki frá dönsku kirkjunni og væri gamaldags og sérkennileg miðað við það sem gerðist annars staðar í ríkinu. Meðal ástæðna fyrir því að útlendir biskupar voru ekki sendir hingað til þjónustu var ugglaust að biskupinn, yfirhirðir hinnar kristnu hjarðar, þurfti að skilja sauði sína og þeir urðu að skilja hann bæði hvað tungumál og menningu áhrærði

Ein tilraun var gerð í þessa veru á lútherskum tíma. Á fimmta áratugi átjándu aldar dvaldi Ludvig Harboe, þýskumælandi þegn Danakonungs, hér á landi í nokkur ára og fór með biskupsvald fyrst í Hólabiskupsdæmi og síðar báðum biskupsdæmum landsins. Hann hafði þó ekki biskupsvígslu og gegndi því ekki embættinu til fulls. Síðar varð hann biskup fyrst í Þrándheimi og síðar í Hróarskeldu og varð þar með „kirkjumálaráðherra“ konungs. Í kjölfar eftirlitsferðar hans hér voru gefin út fjölmörg lög og tilskipanir sem í raun komu á ríkiskirkju í landinu.

Á miðöldum horfði þetta öðru vísi við. Eftir dauða Guðmundar góða Arasonar (1201) var norskur maður vígður sem Hólabiskup. Þá hafði mikið upplausnarástand ríkt í biskupsdæminu og nauðsynlegt var að koma á fastari skipan. Á þessum tíma var íslenska höfðingjakirkjan sem verið hafði við lýði hér frá trúarbragðaskiptum að víkja fyrir kaþólskri miðaldakirkju með alþjóðlegra sniði. Erlend kirkjuyfirvöld hafa viljað hraða þeirri þróun. Milli Guðmundar góða um aldamótin 1200 og Jóns Arasonar um miðja sextándu öld sátu 18 biskupar á Hólum og voru 14 þeirra erlendir. Sama skipan komst ekki á í Skálholtsbiskupsdæmi fyrr en 120 árum síðar en frá 1321 til 1465 sátu 19 biskupar í Skálholti og voru aðeins tveir innlendir. Lengi var litið á skeið hinna erlendu biskupa sem niðurlægingartíma fyrir íslensku kirkjuna. Það mat hefur nú verið endurskoðað en vissulega ber að líta til þess að einhverjir þessara manna komu aldrei til landsins og aðrir kunna að hafa verið sendir hingað í refsingarskyni.

Marteinn páfi V., sem hér sést á mynd, skipaði Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup árið 1425. Craxton var enskur munkur, hugsanlega af norrænum ættum.

Jón Vilhjálmsson Craxton sem um er spurt var einn þessara erlendu biskupa. Hann var enskur munkur, hugsanlega af norrænum ættum, sem páfi skipaði Hólabiskup 1425 og var hann vígður árið eftir. Hann kom fyrst til landsins 1427 en náði þá ekki embætti sínu en tókst það í annarri tilraun tveimur árum síðar. Líta má á útnefningu Jóns biskups sem tímanna tákn en fimmtánda öldin (einkum 1415–1475) í sögu okkar kallast enska öldin vegna umsvifa Englendinga hér bæði á sviði verslunar og fiskveiða sem leiddu einnig til ýmissa félagslegra og menningarlegra samskipta.

Jón Vilhjálmsson sýndi af sér röggsama kirkjustjórn á ýmsum sviðum og stóð vörð um dómsvald kirkjunnar sem og eignarrétt hennar. Virðist hann hafa komið með fjölmennt fylgdarlið erlendis frá til að festa sig í sessi. Hann vildi þó líklega framfylgja valdi sínu á málefnalegan máta. Hefur meðal annars verið bent á að hann hafi ýmsum biskupum fremur gert sér far um að nefna bæði vígða og óvígða menn í dóma á vegum kirkjunnar. Athyglisvert er líka að hann gerði tilraun til að koma á svokölluðum dómkapítula (oft nefndur kórsbræðrasamkoma á íslensku) en það var hópur háklerka einkum við dómkirkjur sem voru biskupi til ráðuneytis við kirkjustjórnina, önnuðust hana þegar biskupslaust var og kusu nýjan biskup þegar þörf var á. Samkomur af þessu tagi störfuðu ekki í annan tíma hér svo vitað sé. Einnig virðist Jón hafa stuðst við samráð við prestastefnur og í heild rækt embætti sitt sköruglega og í góðu samræmi við kirkjulög. Geta má þess að Jón Vilhjálmsson beitti sér fyrir fjáröflun í biskupsdæmi sínu til að vinna að framgangi þess að helgi Guðmundar Arasonar yrði formlega viðurkennd í Róm.

Að kirkjulegum skilningi var biskup bundinn dómkirkju sinni og biskupsdæmi ævilangt. Er líða tók á miðaldir lét þó margt í kirkjukenningunni undan fyrir veraldlegri sjónarmiðum. Þegar Jón Vilhjálmsson hafði verið biskup á Hólum í áratug leysti páfi hann frá embættinu og gerði hann þess í stað að biskupi í Skálholti en það var eldra og víðlendara biskupsdæmi og hafði um margt forskot umfram Hóla. Hann hafði embættið þó aðeins með höndum í tvö ár og kom aldrei til landsins á þeim tíma. Dvaldi hann á Englandi við stöðugt þverrandi fjárhag og árið 1437 var embættið veitt hollenskum manni, Gozewijn (Goðsvin) Comhaer nafni.

Um Jón Vilhjálmsson Craxton má lesa í ýmsum ritum um íslenska miðaldasögu.

Mynd:...