Hver var Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup? Var hann Englendingur eða norskur?Lengst af hafa biskupar á Íslandi verið íslenskir menn. Þetta er í raun og veru langt frá því að vera sjálfsagt. Kaþólska miðaldakirkjan var alþjóðleg stofnun. Þrátt fyrir biskupskjör í einhverri mynd heima fyrir höfðu yfirþjóðleg kirkjuyfirvöld eftir atvikum staðfestingar- eða skipunarvald. Þeim hefði því verið í lófa lagið að senda hingað erlenda menn og líklega hefði á stundum ekki verið vanþörf á þegar dvergkirkjan norður í hafi sendi utan miður hæfa menn til vígslu sem vel gat gerst. Þegar einveldi var komið á í Danaveldi og kirkjan tengdist ríkinu í stöðugt vaxandi mæli hefði líka verið eðlilegt að konungur sendi hingað danskan eða dansk-þýskan biskup til að tengja íslenska kirkju og kristni við dönsku kirkjuna og koma henni í líkt horf og tíðkaðist nær þungamiðju ríkisins. En oft bar á því að íslenska kirkjan viki frá dönsku kirkjunni og væri gamaldags og sérkennileg miðað við það sem gerðist annars staðar í ríkinu. Meðal ástæðna fyrir því að útlendir biskupar voru ekki sendir hingað til þjónustu var ugglaust að biskupinn, yfirhirðir hinnar kristnu hjarðar, þurfti að skilja sauði sína og þeir urðu að skilja hann bæði hvað tungumál og menningu áhrærði Ein tilraun var gerð í þessa veru á lútherskum tíma. Á fimmta áratugi átjándu aldar dvaldi Ludvig Harboe, þýskumælandi þegn Danakonungs, hér á landi í nokkur ára og fór með biskupsvald fyrst í Hólabiskupsdæmi og síðar báðum biskupsdæmum landsins. Hann hafði þó ekki biskupsvígslu og gegndi því ekki embættinu til fulls. Síðar varð hann biskup fyrst í Þrándheimi og síðar í Hróarskeldu og varð þar með „kirkjumálaráðherra“ konungs. Í kjölfar eftirlitsferðar hans hér voru gefin út fjölmörg lög og tilskipanir sem í raun komu á ríkiskirkju í landinu. Á miðöldum horfði þetta öðru vísi við. Eftir dauða Guðmundar góða Arasonar (1201) var norskur maður vígður sem Hólabiskup. Þá hafði mikið upplausnarástand ríkt í biskupsdæminu og nauðsynlegt var að koma á fastari skipan. Á þessum tíma var íslenska höfðingjakirkjan sem verið hafði við lýði hér frá trúarbragðaskiptum að víkja fyrir kaþólskri miðaldakirkju með alþjóðlegra sniði. Erlend kirkjuyfirvöld hafa viljað hraða þeirri þróun. Milli Guðmundar góða um aldamótin 1200 og Jóns Arasonar um miðja sextándu öld sátu 18 biskupar á Hólum og voru 14 þeirra erlendir. Sama skipan komst ekki á í Skálholtsbiskupsdæmi fyrr en 120 árum síðar en frá 1321 til 1465 sátu 19 biskupar í Skálholti og voru aðeins tveir innlendir. Lengi var litið á skeið hinna erlendu biskupa sem niðurlægingartíma fyrir íslensku kirkjuna. Það mat hefur nú verið endurskoðað en vissulega ber að líta til þess að einhverjir þessara manna komu aldrei til landsins og aðrir kunna að hafa verið sendir hingað í refsingarskyni.

Marteinn páfi V., sem hér sést á mynd, skipaði Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup árið 1425. Craxton var enskur munkur, hugsanlega af norrænum ættum.
- Pope Martin V - Wikipedia. (Sótt 28.03.2022).