Hvaðan kemur orðið smokkur í nútíma merkingu? Var það tekið upp sem nýyrði eða var notað gamalt orð yfir „condom“?Orðið smokkur hefur fleiri en eina merkingu en allar að því leyti skyldar að átt er við eitthvað þröngt sem smeygt er yfir eitthvað annað. Þar má nefna ermastúku (oft áður fyrr prjónaða) sem smeygt var yfir skyrtuermi til hlífðar. Smokkur er líka sérstök getnaðarverja og nafn á smokkfisk. Í fornu máli var orðið notað um ermalausa skyrtu eða bol. Í nýnorsku er smokk, smukk og í sænsku mállýskum smokk notað í merkingunni ‘fingurhetta, hlífðarhylki á sárum fingri’; samanber líka fornensku smocc k. ‘kufl, treyja’ og fornháþýsku smoccho k. ‘skyrta’.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Bls. 907. Orðabók Háskólans, Reykjavík. Orðsifjabókina má einnig finna á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir Málið.is.
- Mynd: Condom with manual from 1813.jpg | Wikimedia Commons. Höfundur myndar Matthias Kabel. Birt undir Attribution-ShareAlike 3.0 Unported (CC BY-SA 3.0) leyfi. (Sótt 25.5.2022).