Hve stórum hluta af heildarrekstrarumfangi HÍ mælt í peningum er varið utan höfuðborgarsvæðisins, skipt eftir kjördæmum?Háskóli Íslands rekur nokkrar rannsóknastöðvar á landsbyggðinni, sumar í samstarfi við aðra. Þær eru yfirleitt til komnar vegna sérstakra rannsóknaverkefna. Þessar stöðvar eru t.d. á Hornafirði (búið að gera samning, en starfsemi ekki hafin), í Hveragerði, á Kvískerjum, við Mývatn, í Vestmannaeyjum og á Selfossi. Einnig taka viðeigandi rannsóknastofnanir Háskólans á faglegum forsendum fullan þátt í viðbúnaði og þekkingaröflun vegna jarðskjálfta, eldgosa og annarrar náttúruvár hvar sem er á landinu. Nokkrum stöðum við stofnanir Háskólans hefur sérstaklega verið ráðstafað í þessu skyni, m.a. fyrir atbeina Alþingis. Náttúruöflin ráða því hvernig kostnaður af þessari starfsemi skiptist milli landshluta á hverjum tíma og er ekki víst að sú skipting liggi fyrir í bókhaldi. Vísindamenn á vegum Háskólans og stofnana hans, einkum í jarðvísindum og líffræði, fara í fjölmarga rannsóknaleiðangra um landið á ári hverju. Þessar ferðir eru kostaðar af Háskólanum, Rannsóknasjóði hans og öðrum vísindasjóðum. Útlagður kostnaður við þær fellur að miklu leyti til úti á landi. Háskólinn er opinn nemendum hvaðanæva af landinu, án nokkurrar mismununar af hans hálfu. Hagstofa Íslands kann að hafa á hraðbergi tölur um þetta. Þjónusta og fræðsla af hálfu Háskólans stendur í vaxandi mæli öllum landsmönnum til boða, óháð dvalarstað. Fjarkennsla er þáttur í þessu og Vísindavefurinn er nýjasta dæmið, en honum hefur verið afar vel tekið um land allt og spurningar berast ekki síst utan af landi. Á næstu dögum verður opnuð sérstök vefsíða um starfsemi Háskóla Íslands á landsbyggðinni. Spyrjanda er bent á að snúa sér til fjármálasviðs Háskólans ef hann óskar nánari upplýsinga, til dæmis um tölulegar hliðar þessara mála.
Hve mikið af rekstri Háskóla Íslands fer fram utan höfuðborgarsvæðisins?
Útgáfudagur
12.2.2000
Spyrjandi
Karl Björnsson
Tilvísun
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hve mikið af rekstri Háskóla Íslands fer fram utan höfuðborgarsvæðisins?“ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 12. febrúar). Hve mikið af rekstri Háskóla Íslands fer fram utan höfuðborgarsvæðisins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hve mikið af rekstri Háskóla Íslands fer fram utan höfuðborgarsvæðisins?“ Vísindavefurinn. 12. feb. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83>.