Hvað þýðir orðið „melur“ þegar vísað er til manna og hver er uppruni orðsins?Orðið melur hefur fleiri en eina merkingu. Það getur merkt 1 ‘sand- eða malarborið svæði; ávöl hæð, lágur hóll’, 2 ‘melgresi’ og 3 ‘mölfiðrildi, mölfiðrildislirfa; eyðsluseggur’. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989:615) er merkingin ‘eyðsluseggur’ afleidd, dregin af eyðileggingarstarfi mölflugunnar. Um víxlin milli e og ö vísar Ásgeir í orðið mölur (bls. 653) sem skylt er færeysku mølur, nýnorsku mol, sænsku mal (fsæ. mal, möl), dönsku møl (s.m.).

Afleidd merking orðsins melur, það er ‘eyðsluseggur’, er dregin af eyðileggingarstarfi mölflugunnar. Lirfur hennar leggjast á ullarvörur og skinn og naga hvort tveggja sér til lífsviðurværis.
Jóhann […] bað mig um peninga. Mér kom það ekkert á óvart, þegar hann sagði, að Gunna væri ægilegur melur á sér.Merkingin er nefnd í Íslensk danskri orðsbók Sigfúsar Blöndal (1920–1924: 524) og getur vel verið eitthvað eldri í máli manna. Heimildir og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (7. mars 2022).
- Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk dönsk orðabók. Reykjavík.
- File:Tineola.bisselliella.7218.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 22.03.2022). Myndina tók Olaf Leillinger og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-ShareAlike 2.5 Generic — CC BY-SA 2.5