Hver er uppruni orðsins ,kórvilla’ og hvað er átt við með kór-?Samkvæmt Íslenskri orðabók (2002:810) merkir nafnorðið kórvilla annars vegar ‘stórkostleg mistök, afdrifaríkt glappaskot, höfuðvilla’ en hins vegar ‘helsta rangfærsla í fræðikenningu, trúarsetningu’. Elsta dæmi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr blaðinu Dagskrá frá 1897, sem Einar Benediktsson skáld gaf út, og frá mjög svipuðum tíma er annað dæmi frá Einari:[1]
Sú kórvilla í þeim lögum, sem má teljast allra herfilegust, er þó reglan um unninn hrepp.Kór merkir eins og þekkt er ‘innsti hluti í kirkju næst altari’ en einnig ‘söngflokkur’. Hvorug þessara merkinga skýrir forliðinn í kór - og engin tiltækra íslenskra orðabóka hefur hann sem sérstaka flettu. Ég hef enga betri skýringu en að telja kór - hér sem herðandi forlið en tek öllum ábendingum um annað með ánægju.
- ^ Elsta dæmi á vefnum Tímarit.is er frá árinu 1888, í tímaritinu Norðurljósið. Norðurljósið - 5. tölublað (15.03.1888) - Tímarit.is. (Sótt 17.01.2022).
- Íslensk orðabók. 2002. Þriðja útgáfa. A-L. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Sótt 8.1.2022).
- FHM-Choir-mk2006-02.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 12.1.2022).