Er það satt að geimfarar fái sé epli við lendingu á jörðu? Af hverju og hvenær kom þessi siður á?Já, þessi siður tíðkast að minnsta kosti þegar rússnesk geimför lenda á jörðu. Lítið er tekið af ferskum matvælum út í geim, þar sem þau skemmast fljótt. Aftur á móti bíða geimfarar í alþjóðlegu geimstöðinni oft spenntir eftir geimförum frá jörðinni þar sem ferskir ávextir og grænmeti eru með í för. Að sama skapi eru fersk epli kærkomin fyrir geimfara sem eru nýlentir á jörðinni. Þegar geimför rússnesku geimferðarstofnunarinnar lenda á jörðu niðri, eru geimfararnir bornir út úr geimfarinu, settir í þægilega stóla sem eru stundum sveipaðir loðfeldi og þeim gefin epli að borða. Geimfararnir eru bornir út þar sem þyngdarleysið í geimnum getur leitt til vöðvarýrnunar, auk þess sem beinin eru ekki jafnsterk eftir langvarandi dvöl í geimnum. Betra þykir því að þeir standi ekki upp eða gangi um leið og lent er. Óvíst er af hverju epli varð fyrir valinu, fram yfir aðra ávexti eða annan ferskan mat, og hvenær þessi siður komst á. Svarið við þeirri spurningu er væntanlega að finna í bókum um sovésku geimáætlunin. Ef einhverjir lesendur Vísindavefsins luma á svarinu, mega þeir endilega hafa samband! Heimildir og mynd:
- Space.com - For Returning Space Flyers, a Fur Chair and an Apple. (Skoðað 04.07.2015).
- Space food - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 04.07.2015).
- International Space Station: Food - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 04.07.2015).
- Expedition 41 Soyuz TMA-13M Landing | Flickr - Photo Sharing! Myndrétthafi er NASA HQ Photo. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 08.07.2015).
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2015.