Get ég fengið helstu upplýsingar um íslenskan eini (plöntuna)?Einir (Juniperus communis) er eina upprunalega, innlenda barrtréð. Hann er af sýprusætt, einnig kölluð grátviðarætt (Cupressaceae). Talið að um 50-60 einitegundir séu í heiminum öllum sem skiptast svo niður í fleiri afbrigði og undirtegundir. Einir er runni með trékenndan, oftast jarðlægan stofn. Börkurinn er brúnn og þunnur og blöðin eru sígræn og nállaga. Nálarnar eru 8-16 mm á lengd og 1-2 mm á breidd, oddhvassar og stinga töluvert. Blómin eru einkynja í sérbýli, það merkir að aðeins annað kynið finnst á hverri plöntu. Einungis kvenkyns plönturnar þroska ber en til þess að svo geti orðið þarf karlkyns planta að vera í nágrenninu þannig að vindurinn geti borið frjó á milli á vorin. Eftir æxlun tekur þrjú ár fyrir fræin að fullþroskast. Á fyrsta ári myndast kjötkennt aldin, um 8 mm í þvermál og rúmur sentimetri á lengd. Á öðru ári hafa myndast græn ber en á þriðja ári ná berin fullum þroska og eru dökkblá á lit.

Einiber ná fullum þroska á þremur árum.
… í Grasnytjum Björns Halldórssonar er langur kafli um þá trú sem menn höfðu á notkun hans [einis] til að lækna ótal marga kvilla. Hann var notaður við ýmsum öndunarfærasjúkdómum og berklum, brjóstsviða og magaverkjum, nýrnasjúkdómum, þursabiti og gigt svo eitthvað sé nefnt. Rannsóknir hafa staðfest bakteríudrepandi áhrif og hamlandi áhrif á vöxt krabbameins. Eins og flestöll barrtré myndar einir kvoðu með rokgjörnum olíum og er hægt að vinna þær úr nálunum, könglunum og viðnum. Þær hafa m.a. sveppadrepandi og bakteríudrepandi áhrif. Einir var mikið notaður af frumbyggjum Norður-Ameríku, m.a. gegn berklum, þvagfærasýkingum, nýrnameinum og hósta og til að bera á sár og sótthreinsa.Einnig hafa einiber verið notuð sem krydd til dæmis á villibráð og í drykki eins og gin. Einir vex víða í norðan- og vestanverðri Evrópu og til fjalla sunnar í álfunni. Hann er líka að finna í Norður-Ameríku og er algengur á Suður-Grænlandi. Út frá erfðafræðilegum samanburði á stofnum einis á norðurhveli er talið að íslenskir stofnar eigi sér ekki langa sögu og hafi borist hingað til lands frá Norður-Evrópu eftir ísöld og héðan áfram til Grænlands. Heimildir: Þetta svar er að mestu byggt á efni úr bókinni Flóra Íslands eftir Hörð Kristjánsson, Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jón Baldur Hlíðberg sem út kom hjá Vöku Helgafelli 2018. Aðrar heimildir:
- Skógræktarfélag Eyfirðinga. (2021, 28. júlí). Einir. (Sótt 4.4.2022).
- Jón Guðmundsson. (2002, 24. október). Einir. mbl.is. (Sótt 4.4.2022).
- Hörður Kristinsson. (2007). Einir (Juniperus communis). Náttúrufræðistofnun Íslands. (Sótt 4.4.2022).
- Juniperus communis ssp alpina.JPG - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Arnstein Rønning. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi. (Sótt 4.4.2022).