Að vera með eitthvað í hrönnum, er eitthvað sem maður hefur notað í daglegu máli. En eru til hrannir og hvað eru hrannir?Nafnorðið hrönn merkir ‘alda, bára’ (einkum í skáldamáli) en einnig ‘dyngja, aflöng hrúga’ og er það síðari merkingin sem á við orðasambandið í hrönnum í merkingunni „í miklum mæli“. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá síðari hluta 16. aldar í ritinu Ein Ny Hwss Postilla Þad er Gudspiøll og Pistlar Ared vmkring eftir Guðbrand Þorláksson biskup.
lijtlu sijdar vrdu þeir hrønnum nidur slegnir.Þarna stendur hrönnum í aukafallslið sem þekktist vel fram eftir öldum.
og líka í því, hvernig fjeð hafi drepizt í hrönnum (Masseviis).Annað orðasamband með hrönn í svipaðri merkingu er hrönnum saman sem meðal annars er nefnt í tímaritinu Ægi 1924:
Síld, sandsíli, ufsi og ýmsir fuglar éta seiðin hrönnum saman.Heimildir og mynd:
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málssins. Íslensk orðatiltæki. Uppruni, saga og notkun. Mál og menning / Edda útgáfa. Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Mynd: Dead Fish in Mona Lake | Dead fish float on the shoreline of… | Flickr. (Sótt 20.12.2021). Gerald Simmons tók myndina sem er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-NonCommercial-ShareAlike 2.0 Generic — CC BY-NC-SA 2.0