Tengist bílda germanska orðinu Bild? Hver er uppruni þess og hvar er samsvörun íslenska orðsins mynd að finna í indóevrópskum málum?Ekki er að sjá að íslenska orðið bílda ‘breiðöxi’ tengist þýska orðinu Bild ‘mynd’. Um mynd segir í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989:647):
mynd ‘form, lögun; skipan, fyrirkomulag; teikning, eftirlíking, ljósmynd af e-u’; sbr. færeysku mynd ‘eftirmynd e-s’, nýnorsku mynd ‘eiginleiki, eðli; leyndardómsfull eigind’. Líklega af sama toga og fornensku gemynd ‘hugsun, minning’ og gotnesku gamunds ‘endurminning’, fornháþýsku gimunt ‘minni, hugsun’; mynd þá e.t.v. < * (ga)-mundi- sk. muna og litháísku at-mintìs ‘hugsun, ætlun’, sbr. einnig gotnesku anaminds ‘getgáta,…’ (hljsk.) og latínu mens (ef. mentis) ‘hugur’. Sé þessi ættfærsla rétt verður að ætla að upphafleg merking í norr. mynd hafi verið ‘hugarmynd, skynmynd’ og síðan ‘eftirlíking í e-u formi’.Það er því fremur mynd sem tengist þýsku og öðrum vestur-germönskum málum að uppruna þótt merkingin sé eilítið önnur.

Myndir á vegg.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. Orðabókina má einnig finna á vef Stofnunar Árna Magnússonar undir málið.is.
- Homestratosphere.com. (Sótt 7.12.2021).