Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvaðan kemur þessi rótgróna hugmynd um að ávöxtur skilningstrésins hafi verið epli?
Það er ekki með nokkru móti hægt að vita hvers lags ávöxtur óx á skilningstré góðs og ills vegna þess að hinn hebreski frumtexti Biblíunnar í 1. Mósebók 3.6 talar aðeins um „ávöxt“ í almennri merkingu, perí á hebresku. Afar ólíklegt er að matarepli eins og við þekkjum í dag, Malus domestica, hafi þekkst í Palestínu á ritunartíma paradísarsögunnar, til þess var einfaldlega of heitt. Þó voru „epli“ ekki óþekkt á þessu svæði því að „skógarepli“, Malus sylvestri, sem eru beisk á bragðið, uxu í fjalllendinu í Líbanon þar sem var kaldara og vitað er til þess að þau voru ræktuð bæði í Sýrlandi og Egyptalandi (Moore/Younker). Líklegra er þó að höfundur sögunnar hafi haft ferskju, apríkósu eða ávöxt roðarunnans (e. quince) í huga (Masterman).
Það er hins vegar annað mál að í túlkunar- og viðtökusögu textans, sérstaklega í myndlist, hefur ávöxturinn mjög gjarnan verið sýndur sem epli. Hvernig sú hefð náði fótfestu er hægt að greina í grófum dráttum. Algengt er í skýringartilraunum að finna rót þeirrar túlkunarhefðar í latneskri þýðingu Biblíunnar, sem Damasus páfi fól heilögum Híerónýmusi að vinna árið 382 eða 383 og gengur undir heitinu Vúlgata, það er „hin almenna“. Sú þýðing varð hægt og bítandi sá biblíutexti sem öll trúariðkun og helgihald rómversk-kaþólsku kirkjunnar á miðöldum miðaði við og sem enn er sá grundvallarritningartexti sem kaþólska kirkjan fylgir. Þeir sem sjá rót „eplishefðarinnar“ í Vúlgötu benda á meintan orðaleik Híerónýmusar þar sem latneska orðið malum leikur lykilhlutverk. Ástæðan er sú að hvorugkynsnafnorðið malum getur þýtt hvort tveggja á latínu, „mistök/skaði/ógæfa/glæpur“ eða „epli“. Þar að auki merkir lýsingarorðið malus, í hvorugkyni malum, „vondur/illur“. Með því að nota orðið malum á Híerónýmus að hafa meðvitað verið að tengja ávöxtinn við brot Evu og Adams gegn boði Guðs um að borða ekki ávextina af viðkomandi tré; það að borða ávöxtinn hafi verið glæpur og leitt til ógæfu. Vegna þess að Híerónýmus hafi þannig tengt ávöxtinn við orðið malum, sem einnig getur þýtt „epli“, hafi túlkendur textans síðar meir ályktað sem svo að ávöxturinn hafi verið epli.
Á frægu málverki Peters Pauls Rubens (1628-1629) af Adam og Evu líkist ávöxturinn helst granatepli.
Þetta hljómar allt mjög sennilega og er endurtekið á hinum og þessum vefsíðum um efnið, gjarnan með vísun í grein eftir Robert Appelbaum, fyrrverandi prófessor í enskum bókmenntum við Háskólann í Uppsala, um hinn forboðna ávöxt í ljóðabálki Johns Miltons, Paradísarmissi. En orðaleikurinn er hins vegar ekki eins augljós og Appelbaum og fleiri vilja vera að láta því að í bollaleggingum sínum fer hann með rangt mál þegar hann fullyrðir að Vúlgata þýði orðið „ávöxtur“ með orðinu malum. Hið rétta er að í 1Mós 3.6 er notað orðið frūctus, „ávöxtur“, sem er jafnórætt og perí á hebresku.
Í versinu á undan, hins vegar, segir snákurinn við Evu að ef þau Adam borði af trénu, þá muni þau verða lík Guði og kunna skil á góðu og illu, scientes bonum et malum. Orðið malum er hér ekki nafnorð heldur lýsingarorðið „illur“ í þolfalli sem líkist nafnorðinu malum, „epli“. Vissulega má ímynda sér að Híerónýmus leiki sér hér meðvitað með orðin í þeim tilgangi að hugrenningatengslin við hið illa (malum) flytjist yfir á ávöxtinn (frūctus) sem vex vissulega á tré og er því malum samkvæmt skilgreiningu því að eins og Appelbaum bendir réttilega á gat orðið malum í latínu merkt sérhvern matarmikinn sáðberandi ávöxt, sem líktist epli og óx á trjám, og gat þannig verið notað um granatepli, ferskjur, appelsínur og sítrónur (Appelbaum, 224). Og jafnvel í enskri tungu á tíma Miltons, á 17. öld, gat orðið apple merkt hvaða „eplislíkan“ ávöxt sem var (Appelbaum, 223).
Það er því ljóst að hvorki latneska orðanotkunin malum né apple á ensku leiðir af sér þá óhjákvæmilegu túlkun að hinn forboðni ávöxtur hafi verið epli í líkingu við þann ávöxt sem við þekkjum undir því nafni úr matvöruversluninni og vex svo víða í Mið- og Norður-Evrópu. Appelbaum kemst að þeirri niðurstöðu í grein sinni að samkvæmt lýsingum Miltons í verki sínu sé ávöxturinn á trénu Malus domestica, venjulegt epli – þjóðarávöxtur Englendinga – áður en Adam og Eva borða af trénu en breytist í malum persicum, ferskju, eftir átið. Þessi umbreyting sé í raun tákn fyrir syndafallið þar sem hið „saklausa“ – en þó girnilega – epli breytist í hina enn girnilegri og safaríkari ferskju sem hefðbundið og menningarlega hefur verið tengd hinu guðlega og austræna, hinu „áfenga“ (eins og eplið reyndar líka) og um leið hinu varhugaverða.
Þessi skilningur á verki Miltons, þar sem ávöxturinn er tvíræður, er í samhljóman við vitnisburð myndlistarsögunnar því að til að mynda í verkum endurreisnarmálaranna er tegund ávaxtarins alls ekki einhlít. Þannig er hann fíkja í hinni frægu fresku Michelangelos í lofti Sixtínsku kapellunnar í Vatíkaninu í Róm (máluð 1508-1512), sítrusávöxtur á altaristöflu bræðranna Huberts og Jans van Eyck í Gent í Belgíu (1432) og eitthvað sem líkist granatepli í frægu málverki Peters Pauls Rubens (1628-1629). Val ávaxtarins hefur í hverju tilfelli fyrir sig án efa tengst hugmyndum listamannanna um eðli ávaxtarins og/eða afleiðingar þess að neyta hans.
Þá einokunarstöðu sem eplið hefur öðlast í listrænni túlkun á forboðna ávextinum síðustu aldirnar má án efa að hluta til rekja til frægrar málmristu listamannsins Albrechts Dürers frá árinu 1504. Þar standa Adam og Eva hlið við hlið í forgrunni myndarinnar en bakgrunnurinn og umgjörðin er ekki austrænn aldingarður heldur þéttur og dimmur þýskur skógur. Tréð, sem stendur að baki Adams og Evu með freistandi ávexti hangandi á greinum sínum, er þó ekki eplatré heldur fíkjutré, sem er tákn fyrir skilningstré góðs og ills. Adam heldur hins vegar í hægri hendi sinni á grein af aski, sem er tákn fyrir tré lífsins. Í mynd Dürers úir og grúir af einkennilegum og þversagnakenndum táknmyndum eins og hitabeltisdýrum sem sannarlega virka framandi í þýskum skógi en mótsagnakenndust er þó sú staðreynd að þrátt fyrir að skilningstré góðs og ills sé fíkjutré, þá eru ávextirnir sem vaxa á því, og sá sem Eva heldur á í hendi sér, epli, venjuleg evrópsk epli. Þessi málmrista Dürers átti eftir að hafa gríðarlega mikil áhrif á aðra listamenn og túlkun paradísarsögunnar almennt víða um lönd, ekki aðeins vegna þess að listaverkið væri stórkostlegt í sjálfu sér, heldur ekki síður vegna þess að um var að ræða málmristu sem hægt var að fjöldaframleiða og þannig fékk verkið mikla dreifingu og varð afar þekkt.
Fræg málmrista Albrechts Dürers af Adam og Evu. Tréð á myndinni er fíkjutré en ávextirnir sem vaxa á því eru epli. Eva heldur á epli.
Aðrar skýringar á vinsældum eplisins hafa verið nefndar, svo sem sú staðreynd að eplatréð var algengasta ávaxtatréð á heimaslóðum hinna norður-evrópsku listamanna endurreisnartímans. Einnig má vera að áhugi endurreisnartímans á grísk-rómverskum bókmenntum og goðsögum hafi haft áhrif á túlkunina. Til að mynda hafa líkur verið leiddar að því að gríska skáldið Longus hafi í ástarsögu sinni um Dafnis og Klóe (ritaðri um 200 e.Kr.) ekki aðeins sótt sér innblástur í verk grísku skáldkonunnar Saffó (Segers) heldur einnig sótt hugmyndir að einhverju leyti til paradísarsögunnar í 1. Mósebók en snúið á alla enda og kanta í samræmi við eigin skáldlegu þarfir (Feder). Líkindin endurspeglast til dæmis í sakleysi hinna ungu elskenda og „eplatré“, sem stendur þar sem þau eru vön að hittast og er rúið ávexti og laufi fyrir utan það að hátt í limi þess hangir eitt stórt og fallegt „epli“ (mēlon), ríkara að ilmi en öll önnur „epli“ samanlagt. En í sögu Longusar er það karlinn, Dafnis, sem tekur ávöxtinn af trénu. Mótíf paradísarfrásögunnar eru vissulega til staðar og með vísan í áhrif frá Saffó þar sem hún yrkir um glykymēlon eða „sætt epli“ hefur það verið rökstutt að ávöxtur Longusar sé raunverulega epli (Segers). Hafi Longus notað söguna úr Edengarðinum sem fyrirmynd er ekki útilokað að hann hafi túlkað hana sem táknsögu um kynþroska mannsins, þegar hann yfirgefur barnslegt sakleysi sitt og verður kynvera, líkt og seinni tíma túlkendur hafa túlkað ýmis endurreisnarlistaverkin (Appelbaum, 229-230) og sumir fræðimenn hafa getið sér til um að sé frummerking syndafallssögunnar (Engnell).
Goðsaga, sem ekki er ólíklegt að hafa haft áhrif á listræna túlkun paradísarsögunnar, er sagan um hin gullnu „epli“ Heru, eiginkonu Seifs, sem gætt var af Vesturdísunum. Ávextirnir, sem nánast undantekningarlaust er túlkaðir sem epli í bókmenntum og myndlist síðustu aldirnar, eru nefndir með orðinu mēlon í Goðatali Hesíods, sem líkt og malum í latínu getur bæði merkt hvaða trjáávöxt sem er með mjúkt hýði, sem og epli sérstaklega, en þá líklega hið beiska „skógarepli“, Malus sylvestris. Túlkun Dafnis og Klóe og sögunnar af gullnu „eplunum“ er því undirorpin sömu fyrirvörum og túlkun biblíusögunnar um forboðna ávöxtinn vegna tvíræðni orðanna sem notuð eru um ávextina en í ljósi þess að epli voru algengir ræktunarávextir í Grikklandi, að minnsta kosti frá tíma Hómers (Dalby, bls. 19), er líklegra ávextirnir í grísku sögnunum eigi að vera epli. Í það minnsta er tilhneiging til þess að líta á ávextina, sem um ræðir, sem epli, Malus domestica, í varðveislu- og túlkunarsögunni, sérstaklega í mið- og norðurevrópskri menningu, að hluta vegna náttúrulegrar flóru þess heimshluta.
Heimildir:
Robert Appelbaum, „Eve's and Adam's "Apple": Horticulture, Taste, and the Flesh of the Forbidden Fruit in "Paradise Lost",“ Milton Quarterly, 36/4 (Desember 2002), bls. 221-239.
Andrew Dalby, Food in the Ancient World from A to Z, London; New York: Routledge, 2013.
Ivan Engnell, „"Knowledge" and "Life" in the Creation Story“ í: Wisdom in Israel and in the Ancient Near East, VTSup 3, Leiden: E.J. Brill, 1969, 103-119.
Theodore H. Feder, „Daphnis and Chloe in the Garden of Eden,“ Biblical Archaeology Review 39, 4/2013, 50–53, 62.
Hesiod, The Homeric Hymns and Homerica with an English Translation by Hugh G. Evelyn-White. Theogony, Medford, MA: Cambridge, MA., Harvard University Press; London: William Heinemann Ltd., 1914.
E. W. G. Masterman, „Apple, Apple-Tree,“ í: James Orr o.fl. (ritstj.)The International Standard Bible Encyclopaedia, Chicago: The Howard-Severance Company, 1915.
Megan Bishop Moore, und Randall W. Younker, „Apple,“ í: David Noel Freedman o.fl. (ritstj.), Eerdmans dictionary of the Bible, Grand Rapids, MI: W.B. Eerdmans, 2000, bls. 81.
Jón Ásgeir Sigurvinsson. „Hvaða ávöxtur óx á skilningstrénu?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2022, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82334.
Jón Ásgeir Sigurvinsson. (2022, 11. mars). Hvaða ávöxtur óx á skilningstrénu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82334
Jón Ásgeir Sigurvinsson. „Hvaða ávöxtur óx á skilningstrénu?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2022. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82334>.