Hvaða skordýr er á myndinni? Mig langar að vita hvaða dýr þetta er? Ég bý á Laugum í Þingeyjarsveit og sá margar svona á húsveggnum hjá mér.Skordýrið á myndinni sem spyrjandi sendi kallast fíflalús (Uroleucon taraxaci). Heitið er dregið af því að fíflalúsin lifir á túnfíflum, en fræðiheiti þeirra er Taraxacum. Fíflalúsin heldur sig aðallega á neðra borði laufblaða túnfífla og við blaðgrunninn. Þegar líða tekur á sumarið fjölgar lúsinni verulega og þá skríður hún ofar í gróðurinn og fer síðan iðulega af honum upp á veggi húsa og skjólgarða. Þess vegna kemur ekki á óvart að spyrjandi hafi séð margar fíflalýs á húsveggnum á Laugum í Þingeyjarsveit síðsumars.
- Fíflalús (Uroleucon taraxaci) | Náttúrufræðistofnun Íslands. (Sótt 24.08.2021).