Hverjar eru orðsifjar nafnorðsins spjör og sagnarinnar spjara? Liggja sifjabönd þar á milli?Tengsl eru milli nafnorðsins spjör ‘flík; tuska, fataleppur,…’ og sagnarinnar spjara ‘klæða sig, fara í spjarir’. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er uppruninn indóevrópskur samanber færeysku spjørr kv. ‘tötraleg flík, fataleppur; ónytjungur, rolumenni’, nýnorsku spjør, spjørr kv. ‘leppur, (afrifin) lengja af e-u; fiskuggi,…’, sænskar mállýskur spjurr, spjörr h. ‘uggi’; spjör < *sperrō eða *sperzō skylt grísku sparáttō ‘ríf í sundur’, sbr. armensku p՝ert՝ ‘afrifið stykki’, lettnesku spurs ‘tægja, fiskuggi’ (1989: 938). Sögnin er leidd af nafnorðinu.
Hvárt er þat satt, Þórður, að Auður, kona þín, er jafnan í brókum, og setgeiri í, en vafið skjörum mjög í skúa (þ.e. skó) niður?Þarna merkir spjör ‘fataleppur, tuska’. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta dæmi um sögnina spjara er frá fyrsta þriðjungi 19. aldar og er merkingin þar ‘1. klæða sig; 2. Slá um sig’. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. Orðabókina má einnig finna á Málið.is á vef Stofnunar Árna Magnússonar.
- Laxdæla. 1934. Íslenzk fornrit V. bindi, 35. kafli, bls. 95. Einar Ólafur Sveinsson gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (4.01.2022).