Hver er uppruni orðsins „grautur“? Tengist það á einhvern hátt flæmska orðinu „gruit“?Orðið grautur kemur fyrir í málinu þegar í fornum heimildum. Það þekkist vel í grannmálunum, í færeysku greytur, nýnorsku graut, sænsku gröt, dönsku grød < *grauti-, eiginlega ‘e-ð mulið, kornótt jukk’ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989:273). Það er af germönsku rótinni *greut- (indóevrópsku rótinni *ghreu-d-) ‘mylja’, til dæmis í miðháþýsku vergriezen ‘mylja í smátt’, fornensku gréat ‘stórkornóttur, stór’, fornháþýsku grōz ‘grófur, sver, stór’. Í þýskri orðsifjabók Wolfgangs Pfeifer (2000:486) er undir flettunni Grütze ‘afhýdd, grófmöluð korn; grautur úr slíkum kornum’ bent á fornnorræna orðið grautur af germönsku *grutja-.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. Orðabókin er einnig aðgengileg á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (malid.is).
- Wolfgang Pfeifer. 2000. Etymologisches Wörterbuch der deutschen Sprache. 5. útgáfa í vasabókarbroti. Deutsche Taschenbuch Verlag, München.
- Mynd: Bowl of porridge with spoon.jpg. Höfundur myndar: Keypunch. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi. (Sótt 30.9.2021).