Má heita 4 nöfnum? Má ég bæta við einu? Hef bætt einu sinni áður.Fullt nafn einstaklings er samsett úr eiginnafni/nöfnum, millinafni[1] ef við á og kenninafni/nöfnum. Samkvæmt núgildandi lögum um mannanöfn (nr. 45/1996) mega eiginnöfn og millinafn aldrei vera fleiri en þrjú samtals. Leyfilegt er að bera þrjú eiginnöfn eða tvö eiginnöfn og eitt millinafn. Kenninöfn mega ekki vera fleiri en tvö. Ef einstaklingur ber nú þegar þrjú eiginnöfn, eða tvö eiginnöfn og eitt millinafn, er því ekki hægt að bæta við fjórða nafninu. Samkvæmt upplýsingum á vef Þjóðskrár má breyta nöfnum ef skilyrði mannanafnalaga eru uppfyllt en nafnbreytingar eru aðeins heimilaðar einu sinni, nema sérstaklega standi á. Ekki kemur fram hvað getur valdið undantekningu frá þessu viðmiði um að mega aðeins breyta einu sinni.
- ^ Leyfilegt er að gefa barni eitt millinafn ásamt einu eða tveimur eiginnöfnum, en slík nafngjöf er þó engin skylda. Millinöfn eru eins og ættarnöfn að því leyti að bæði karlar og konur geta borið sama nafnið. Millinöfn eru á hinn bóginn eins og eiginnöfn að því leyti að þau er hægt að gefa við skírn eða nafngjöf. Dæmi um millinöfn eru Arnfjörð, Reykfjörð, Sædal og Vattnes - sjá nánar reglur um mannanöfn á vef Stjórnarráðs Íslands. Sjá meira um millinöfn í svari við spurningunni Hvers vegna má ég ekki taka upp ættarnafn langafa míns?
- Þjóðskrá. Nöfn. (Sótt 14.9.2022).
- Lög um mannanöfn nr. 45 (1996). (Sótt 14.9.2022).
- Frumvarp til laga um mannanöfn. Þingskjal 162 - 161. mál. (2020). (Sótt 14.9.2022).
- Frumvarp til laga um mannanöfn. Þingskjal 88 - 88. mál (2022). (Sótt 14.9.2022).
- Prince Charles.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Dan Marsh. Birt undir Creative Commons Attribution-ShareAlike 2.0 Generic (CC BY-SA 2.0) leyfi. (Sótt 14.9.2022).