Hvað þýðir orðið doggur og hvaðan kemur það, í samhenginu "að rísa upp við dogg"? Endalaust finnst enn af orðum sem aðeins heyrast í orðasamböndum: Hvað er doggur... ef það er þá rétta nefnifallsmyndin (enda orðið aldrei notað í nefnifalli)?Orðið doggur þekkist í málinu að minnsta kosti frá 18. öld. Í Íslensk-latnesk-danskri orðabók Björns Halldórssonar, sem unnin var á síðari hluta 18. aldar en út kom 1814, segir um orðið:
Doggur þad seigia menn almennel(ega) hundurin sitie upp vid dogg, og madur sem situr vid eitthvad hann sitii vid dog[g].Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989:117) er doggur gefinn í þrenns konar merkingu en um þá sem spurt er um stendur að orðið merki:
‘uppréttur, sívalur stjaki’; sbr. orðasamb. sitja (liggja, hallast, rísa) upp við dogg þ.e. sitja hálfuppréttur (flötum beinum) og hallast upp við e.k. hægindi eða styðjast við olnbogana; rísa þannig upp til hálfs. Orðið doggur er líka haft um þráðardokku og svifaseinan og værukæran mann: sitja eins og doggur þ.e. hreyfingarlaus og agndofa; (vera) eins og doggur ‘(vera) hreyfingarlaus, eins og hraukur’. Af þessum toga er líklega lo. doggslegur ‘dauflegur, stirðlegur.

Orðasambandið sitja (liggja, hallast, rísa) upp við dogg merkir að 'sitja hálfuppréttur (flötum beinum) og hallast upp við e.k. hægindi eða styðjast við olnbogana; rísa þannig upp til hálfs.'
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. (Orðsifjabókina má einnig finna á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undirMálið.is).
- Björn Halldórsson. 1814. Lexicon Islandico-Latino-Danicum. Biørn Haldorsens islandske Lexikon. Havniæ [Kaupmannahöfn].
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans er á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Arnastofnun.is
- A man sitting on the floor of a living room, leaning again… | Flickr. (Sótt 10.06.2021). Myndin tilheyrir BiblioArchives / LibraryArchives og er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0