Jöklar eru flokkaðir í þíðjökla og gaddjökla/hjarnjökla. Af myndum að dæma af brotsárum jökla á Grænlandi eða Suðurheimskautinu þá er ekki þar um ís að ræða heldur sampressaðan snjó? Þegar jöklar hérlendis kelfa er greinilega um ís að ræða. Hvað er rétt í þessu?Hér þarf nokkur orð um hitastig í jöklum og hvernig snjór breytist í jökulís. Hugtökin þíðjökull og gaddjökull lýsa hitastigi. Annars vegar eru þíðjöklar, þar sem allt vetrarfrost hefur horfið fyrir lok sumars, hitastig þeirra er við frostmark. Þannig eru íslenskir jöklar. Hins vegar eru gaddjöklar á heimskautasvæðum með snjó og ís undir frostmarki. Þegar fjær dregur heimskautasvæðum geta jöklar að hluta til verið þíðir en annars staðar gaddfreðnir. Áður fyrr voru jöklar nefndir á ensku "polar, sub-polar og temperate" með tilvísun í legu þeirra á hnettinum og loftslag. Nú tilgreina jöklafræðingar nákvæmlega hvort hitastig íss sem þeir lýsa sé undir frostmarki eða við það. Hugtakið hjarnjökull var áður notað um þann hluta jökuls sem þakinn er snjó í lok sumars, en nú nefnum við það hjarnsvæði, safnsvæði eða ákomusvæði jökulsins. Hjarnmörk skilja þetta svæði frá leysingarsvæðinu þar sem allur vetrarsnjór bráðnar svo að á yfirborði jökulsins er gamall ís sem borist hefur ofan frá safnsvæðinu við framskrið jökulsins. Sá ís varð til á safnsvæðinu vegna þess að eitt snjólag hlóðst þar ofan á annað og hjarnið breytist smám saman í jökulís. Hér á landi er snjór orðinn að ís á um 10 m dýpi. Á Breiðamerkurjökli eru hjarnmörk í 1100-1200 m hæð og hann ber því gamlan jökulís fram í Jökulsárlón.
- File:Ice Shelf Antarctica 13.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 3.05.2021).