Í málsháttasafni Nönnu Rögnvaldardóttur er setning sem hljómar svona: "Ekki má kasta svartri konu úr sæng." Það hlýtur að vera að þetta þurfi ekki túlka bókstaflega - en hver er uppruni málsháttarins og hvað þýðir hann í rauninni?Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans um málsháttinn Ekki má kasta svartri konu úr sæng er úr málsháttasafni Guðmundar Jónssonar frá 1830. Í lítið eitt annarri mynd er málshátturinn Ekki skal svartri konu úr sæng kasta sem finnst í málsháttasafni Guðmundar Ólafssonar frá 17. öld og gefið var út 1930. Jón G. Friðjónsson fjallar um málsháttinn í riti sínu Orð að sönnu og segir merkinguna vera ‘ekki er rétt að koma ljótri konu úr hvílu’ (2014:318). Rætur málsháttarins segir hann erlendar og vísar í málsháttasafn danska fræðimannsins Peders Låle sem uppi var á 14. öld. Rit hans, Östnordiska och Latinska medeltidsordspråk, var gefið út 1889–1892. Þar er málshátturinn Man scal eij kasthe soorth kone tijl sænghæ fiæll sem Jón skýrir ‘að rúmfjöl, til rúmbríkur’. Jón telur að svört kona muni hér vísa til eiginkonu.
- Bjarni Vilhjálmsson og Óskar Halldórsson. 1966. Íslenzkir málshættir. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- [Guðmundur Jónsson]. 1830. Safn af íslenzkum orðskviðum, fornmælum, heilræðum, snilliyrðum, sannmælum og málsgreinum. Samanlesið og í stafrofsröð sett af Guðmundi Jónssyni. Kaupmannahöfn.
- [Guðmundur Ólafsson.] 1930. Gudmundi Olaui Thesaurus adagiorum linguæ Septentrionalis antiquæ et modernæ. Lundi.
- Hallgrímur Scheving. 1843–1847. Islendskir málshættir safnadir, útvaldir og í stafrofsrød færdir af Skólakennara Dr. H. Schevíng. Bodsrit Bessastada Skola.
- Jón G. Friðjónsson. 2014. Orð að sönnu. Íslenskir málshættir og orðskviðir. Forlagið: Reykjavík.