[þ]að verk [sé] refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.Öllum er því heimilt að verjast ólögmætri árás ef neyðarvörnin uppfyllir skilyrði ákvæðisins. Hugtakið ólögmæt árás hefur í þessu ákvæði verið túlkað rúmt svo árásin getur beinst að eignum manns og heimili. Innbrot væri því ólögmæt árás og því mættu heimilismenn og eigendur verjast slíkri árás svo lengi sem vörnin sé ekki augsýnilega hættulegri en árásin og tjónið sem vænta mátti vegna hennar. Í íslenskum lögum er hvergi skráð að heimild til beitingu neyðarvarnar sé rýmri inni á heimili manns en annars staðar. Í meistararitgerð sinni „Neyðarvörn í skjóli heimilisins“ heldur Ólafur Egill Jónsson, lektor í refsirétti, því fram að „Skynsamlegasta lausnin virðist vera sú að dómarinn horfi heildrænt á aðstæður og meti hvort varnarverkið hafi verið forsvaranlegt og nauðsynlegt. Við það mat ætti það að hafa áhrif, þeim sem vinnur varnarverk til hagsbóta, að árásin er á heimili hans.“ Heildrænt mat verður að fara fram á neyðarverkinu sjálfu, árásinni sem verið er að verjast (í þessu tilfelli húsbrot eða meira) og hvers lags verknaðaraðferð er beitt til að verjast árásinni. Það að innbrotsþjófur sé inni á heimili þess sem beitir neyðarvörn væri heimilismanni þó í flestum tilfellum til málsbóta. Geðshræring og ofsakenndur ótti eru eðlileg viðbrögð í þessum kringumstæðum. Í mörgum fylkjum Bandaríkjanna er svokallað „castle doctrine“ við lýði, en það er löggjafarfyrirmynd sem heimilar mönnum aukinn rétt til neyðarvarnar þegar einstaklingur brýst inn á híbýli, dvalarstað eða ökutæki. Þá er miðað við hvort heimilismaður hafi verið hræddur eða ætlað að sá sem braust inn hefði eitthvað illt í hyggju. Séu tiltekin skilyrði uppfyllt getur húsráðanda verið heimilt að ráða innbrotsmanni bana í ýmsum fylkjum Bandaríkjanna. Heimildir og mynd
- Brian Stansberry. No Trespassing signs - Wikimedia Commons. Sótt 31.03.21 og birt undir CC BY 3.0 leyfinu.
- Jónatan Þórmundsson. Afbrot og refsiábyrgð III. bls. 119.
- Ólafur Egill Jónsson. Neyðarvörn í skjóli heimilisins. Sótt 31.03.21.