Almenn regla: Brjóti einstaklingur eigur annarra skal sá hinn sami sæta fangelsi ekki skemur en 1 mánuð og allt að 2 árum. Sérregla: Brjóti einstaklingur eigur Þjóðminjasafns Íslands skal sá hinn sami sæta fangelsi ekki skemur en 3 ár og allt að 16 árum.Almenna reglan í þessu tilbúna dæmi gæti til að mynda átt sér hliðstæðu í almennum hegningarlögum en sérreglan í lögum um Þjóðminjasafn Íslands. Almenna reglan gildir um allar eigur annarra manna en sérreglan gildir eingöngu um muni í eigu tiltekinnar stofnunar og með henni er hægt að lengja refsirammann fyrir brot gegn almennu reglunni, ef þau beinast að sérstaklega verðmætum hagsmunum. Tilfellin sem falla undir sérregluna myndu þá varða við almennu regluna ef sérreglunni væri ekki til að dreifa. Þetta túlkunarsjónarmið, að sérlög skuli ganga framar almennum lögum, er meginregla um lagaákvæðaval þegar árekstur er til staðar um til hvaða laga eigi að líta í tilteknu tilfelli. Reglan er alþjóðleg og til hennar er stundum vísað á latínu með orðunum: Lex specialis derogat legi generali. Það merkir einfaldlega: sérlög skulu ganga framar almennum lögum. Reglan um lex specialis er byggð á þeirri rökfræðilegu ályktun að sérreglu um tilvikið X skuli beitt þrátt fyrir að til sé almennari regla sem einnig á við um tilvikið X. Það er, ef sérregla gildir um tiltekið tilvik skal beita henni frekar en almennari reglu. Raunverulegra dæmi en tekið var hér að ofan er til dæmis að almenn regla sem skyldar starfsmenn ríkis um trúnað um einkamálefni sem þeir kunna að frétta af í starfi sínu, myndi víkja gagnvart sérreglu um trúnaðarskyldu heilbrigðisstarfsmanns gagnvart skjólstæðingnum sínum. Hin síðari sérregla er nákvæmari og viðurlög við henni önnur en hinni almennu reglu starfsfólks hins opinbera. Heimildir og mynd
- Woody Hibbard. Law - Flickr. Sótt 10.03.2021 og birt undir CC BY 2.0 leyfinu.