Hvernig eru lögin um lausagöngu og hirðingu búfjár og hvenær tóku þau gildi? Og hver eru viðurlögin við brotum á þeim?Um það sem hér er spurt gilda lög um búfjárhald og lög um velferð dýra. Þessi lög tóku bæði gildi 1. janúar 2014 og komu í stað eldri laga um sama efni. Lög um vörslu búfjár veita sveitarstjórnum rétt til að setja samþykktir sem koma í veg fyrir ágang búfjár og skylda umráðamenn dýranna til að hafa þau í vörslu allt árið eða tiltekna hluta ársins. Þá er sérstaklega kveðið á um skyldu umráðamanna fullvaxta graðpeninga til að halda slíkum skepnum í öruggri og afmarkaðri vörslu allt árið, að undanskyldum hrútum og höfrum sem mega ganga lausir frá upphafi maí til upphafs nóvembermánaðar hvert ár. Sleppi graðpeningur úr tryggri vörslu er það skylda sveitastjórnarinnar að handsama dýrið og koma því fyrir á afmörkuðu og öruggu svæði. Ákvörðunarvald um lausagöngu búfénaðar er því að mestu leyti í höndum viðkomandi sveitarstjórnar. Brjóti menn gegn reglum um vörslu búfénaðar getur það varðað fjársektum. Um almenna hirðingu búfjár gilda lög um velferð dýra. Í VII. kafla laganna eru ýmsar skyldur lagðar á herðar umráðamanna dýranna, meðal annars að þeim sé haldið í umhverfi sem samræmist sjónarmiðum um velferð dýra, hafi skjól og að aðbúnaður sé með tilliti til þarfa og öryggis dýranna. Einnig er gerð krafa um að sá sem er skráður fyrir dýrunum hafi aflað sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun þeirra. Matvælaeftirlitið sér um að framfylgja þessum lögum með reglulegu opinberu eftirliti. Vanræki menn umönnunarskyldur dýravelferðarlaganna getur það varðað allt að eins árs fangelsisvist skv. 1. mgr. 45. gr. þeirra. Heimildir og mynd
- Alþingi - Frumvarp til laga um búfjárhald. (Sótt 22.02.2021).
- Alþingi - Frumvarp til laga um velferð dýra. (Sótt 22.02.2021).
- Joiseyshowaa. Icelandic horses in spring. Icelandic horses in spring - Flickr. (Sótt 22.02.2021). Myndin er birt undir leyfinu CC BY-SA 2.0.