Nú eru til vörur sem eru með silfurjónir á yfirborðinu í þeim tilgangi að hefta vöxt og eyða bakteríum (ISO 22196). Virkar þetta einnig gegn veirum?Silfur hefur örveruhindrandi áhrif og hefur verið notað í þúsundir ára í lækningaskyni og til varðveislu matvæla.[1] Silfurjónir hindra eða drepa ýmsar örverur og eru meðal annars nýttar í smyrsl og sáraumbúðir. Mikið dró úr notkun silfurs gegn örverum með tilkomu sýklalyfja en hún hefur aukist á ný síðustu ár og silfur á ýmsu formi ratað í margs konar vörur.[2] Nefna má snyrtivörur, vefnaðarvörur eins og handklæði og sokka og ýmis yfirborð eins og handföng með nanóögnum sem silfurjónir losna frá með tímanum. Ekki er að fullu skýrt hvernig silfuragnir og jónir hindra örverur. Virknin er best þekkt gegn bakteríum og virðist margþætt. Silfuragnir og jónir tengjast yfirborði bakteríufruma, geta komist inn í þær og skemmt ýmsar sameindir og starfsemi sem að lokum hindrar vöxt.[3] Virkni silfuragna gegn veirum er ekki eins vel þekkt en sýkingartilraunir hafa sýnt að þær geta meðal annars truflað bindingu ákveðinna veira við hýsilfrumur.[4][5] Þessar tilraunir tengjast þó ekki silfurögnum í tilbúnum vörum og eru gerðar við aðrar aðstæður.
- ^ Alexander J.W. (2009). History of the Medical Use of Silver. Surgical Infections, 10(3): 289-292. (Sótt 9.3.2021).
- ^ Sim, W. o.fl. (2018). Antimicrobial Silver in Medicinal and Consumer Applications: A Patent Review of the Past Decade (2007-2017). Antibiotics (Basel, Switzerland), 7(4): 93. (Sótt 9.3.2021).
- ^ Durán, N. o.fl. (2016). Silver nanoparticles: A new view on mechanistic aspects on antimicrobial activity. Nanomedicine: nanotechnology, biology, and medicine, 12(3): 789–799. (Sótt 9.3.2021).
- ^ Orlowski, P. o.fl. (2014). Tannic acid modified silver nanoparticles show antiviral activity in herpes simplex virus type 2 infection. PloS one, 9(8), e104113. (Sótt 9.3.2021).
- ^ Lara, H.H. o.fl. (2010). Mode of antiviral action of silver nanoparticles against HIV-1. Journal of Nanobiotechnology, 8, 1. (Sótt 9.3.2021).