Hvers vegna eru íslenskir hestar ekki smáhestar ef smáhestar (pony) geta verið á stærð við íslenska hestinn? Hvað gerir íslenska hestinn að hesti frekar heldur en smáhesti?Íslenski hesturinn er eina hestakynið á Íslandi. Hann hefur ekki blandast öðrum hestakynjum og er því hreinræktaður. Íslendingar hafa alltaf kallað hann hest en ekki smáhest og sama málhefð er í öllum þeim rúmlega 30 löndum þar sem hann er haldinn. Víða erlendis er hefðin sú að eingöngu börn ríða smáhestum. Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur hins vegar tíðkast að bæði fullorðnir og börn ríði íslenska hestinum enda var hann nauðsynlegur fararskjóti á veglausu landinu allt þar til vélknúin farartæki komu á 20. öldinni. Í dag er hann notaður af fullorðnum jafnt sem börnum í almennar útreiðar, hestaferðalög, í reiðskólum, fjölbreyttum keppnisíþróttum og sýningum í rúmlega 30 þjóðlöndum.
- Úr safni höfundar.