Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér á Íslandi er hugtakið aurskriður notað yfir nokkuð margar gerðir ofanflóða, en ofanflóð er samheiti yfir flutning efnis (þar með talið snjór, berg, set eða jarðvegur) vegna áhrifa þyngdarafls.
Flokkunarkerfi skriðufalla sem mest er notað hér á landi í seinni tíð byggir á flokkun sem sett var fyrst fram á sjötta og síðar níunda áratug síðustu aldar af bandaríska jarðfræðingnum David J. Varnes (1919-2002). Uppfærð útgáfa af því flokkunarkerfi var sett fram árið 2014 (Hungr o.fl. 2014). Það flokkunarkerfi byggir annars vegar á þeirri hreyfingu sem efnið ferðast eftir, svo sem hvort það fellur í frjálsu falli (e. fall), velti fram fyrir sig (e. topple), rennur eftir ákveðnum skriðfleti (e. slide), útbreiðslu, þar sem efnið breiðir úr sér til hliðanna (e. spread), flæðir (e. flow) eða aflagast (e. slope deformation). Hins vegar byggir flokkunin á því hvaða efni er á hreyfingu, það er hvort það er fast berg (e. rock) eða laus jarðefni (e. soil). Aurskriður falla undir skilgreiningu sem laus jarðefni af ýmsum gerðum og á hreyfingu sem fellur undir rennsli, útbreiðslu, flæði eða aflögun.
Samkvæmt skilgreiningu er aurskriða flutningur efnismassa, sem getur samanstaðið af eðju, sandi eða bergmylsnu auk vatns, sem fellur eða flæðir niður hlíð fyrir tilstuðlan þyngdaraflsins. Ef við þrengjum skilgreininguna frekar þá þarf efnið sem er á hreyfingu að vera laust í sér og hafa þann eiginleika að geta flætt og að meira en 50% af efninu sé sandur eða grófara efni. Oft er jarðvegskriðum blandað í flokk með aurskriðum hér á landi, en jarðvegskriða á sér stað þegar meirihluti skriðuefnisins er jarðvegur sem rennur ofan á öðrum setlögum.
Þann 20. september 2012 féll stór aurskriða úr fjallinu Móafellshyrnu í Fljótum. Skriðan átti upptök sín í um 880 m hæð og endaði í um 330 m hæð. Orsök skriðunnar er talin vera bráðnun á sífrera og er þetta eitt af fyrstu skriðuföllum hér á landi sem rekja má til breytinga á veðurfari. (Ljósm. Þorsteinn Sæmundsson 2012).
Aurskriður geta bæði ferðast mjög hratt og náð allt að 160 km hraða á klukkustund en aðrar mun hægar, jafnvel einungis 30-60 cm á ári. Þar ræður mestu halli hlíðarinnar og vatnsinnihald skriðuefnisins. Stærð á aurskriðum getur líka verið mjög mismunandi. Meirihluti aurskriða á Íslandi falla í farvegum, en aurskriður utan farvega eru einnig þekktar.
Stærð korna sem geta borist með aurskriðum eru mjög mismunandi, allt frá stórum hnullungum og niður í fínefni. Kornastærðardreifingin ræðst af því hvaða efni er á hreyfingu hverju sinni, það er hvort efnið sé til dæmis jökulruðningur þar sem öllum kornastærðum ægir saman eða einsleitara efni, svo sem leirlög og svo framvegis.
Orsök aurskriða er fyrst og fremst þyngdaraflið, en til þess að setlög eða jarðvegur verði óstöðug þarf vatn að komast inn í efnið og/eða að vatnsrennsli grafi eða rjúfi undan því. Þegar aukið vatn safnast fyrir í jarðlögum þá minnkar samloðun milli korna og að auki þyngist efnið til mikilla muna. Við þær aðstæður eykst hætta á skriðuföllum umtalsvert.
Algengasta orsök aurskriða á Íslandi er úrkoma í formi regns, annað hvort þar sem úrkomuákefð er mikil yfir stuttan tíma eða þegar um langvinna úrkomu er að ræða. Leysingar eru einnig algeng orsök aurskriða. Á Austfjörðum er úrkoma til dæmis orsakavaldur flestra aurskriða, en á Mið-Norðurlandi er mun hærra hlutfall af aurskriðum vegna leysinga. Aurskriður eru algengastar í vorleysingum og haustrigningum og eru þekktar í öllum landshlutum.
Þann 18. desember 2020 féll stór aurskriða á Seyðisfjörð. Skriðan er ein stærsta aurskriða sem fallið hefur á byggð á Íslandi og má rekja orsakir hennar til mikillar úrkomu (Ljósm. Ríkislögreglustjóri 2020).
Aðrar orsakir aurskriða eru þekktar og hér á landi má kannski helst þeirra nefna jarðskjálfta. Á undanförnum árum hefur borið á því að aurskriður hafi verið að falla á Mið-Norðurlandi og á Ströndum þar sem frosin setlög berast niður með skriðuefninu. Ástæðuna fyrir slíkum skriðuföllum má að öllum líkindum rekja til þess að frost í fjöllum eða svokallaður sífreri er að minnka og setlög sem hafa haldist frosin allt árið um kring eru nú að þiðna og verða því óstöðug. Orsakir þessara skriðufalla má rekja til þeirra veðurfarsbreytinga sem hafa verið og eru að eiga sér stað hér á landi, þar með talin hlýnun og breytingar í úrkomumynstri og úrkomuákefð.
Af nýlegum skriðuföllum má nefna skriður sem hafa fallið á undanförnum áratug og rekja má til þiðnunar á sífrera svo sem í Torfufellsdal 2011, Móafellshyrnu 2012, Árnestindi 2014 og fyrir ofan Gilsá í innanverðum Eyjafirði haustið 2020. Stór aurskriða féll í Sölvadal í lok júní 1995 sem rekja má til leysinga. Fjölmargar aðrar skriður féllu um miðjan júní sama ár á Mið-Norðurlandi sem einnig má rekja til mikilla leysinga í kjölfar snjóþungs veturs. Í desember 2020 féll skriða á Seyðisfjörð og er það ein stærsta aurskriða sem fallið hefur á byggð á Íslandi í kjölfar stórfelldra rigninga.
Heimildir:
Hungr , O., Leroueil , S., and Picarelli , L., 2014: The Varnes classification of landslide types, an update: Landslides, v. 11, no. 2, p. 167 167-194.
Morino, C., Conway, S.J., Sæmundsson, Þ., Kristinsson, J.H.,Hillier, Butcher, F., Balme, M.R. Colm, J. & Argles, T. 2019: Molards as a marker of permafrost degradation and landslide processes. Earth and Planetary Science Letters 516, 136-147.
Sæmundsson, Þ., Morino, C., Helgason, J.K., Conway, S.J. & Pétursson, H.G. 2018: The triggering factors of the Móafellshyrna debris slide in northern Iceland: intense precipitation, earthquake activity and thawing of mountain permafrost. Science of the Total Environment 621 (2018) 1163–1175.
Sæmundsson, Þ. & Decaulne, A. 2007: Meteorological triggering factors and threshold conditions for shallow landslides and debris-flow activity in Iceland. In: V.R. Schaefer, R.L. Schuster & A.K. Turner (Eds.): First North American Landslide Conference, Vail Colorado, AEG Publication No. 23, 1475-1485.
Þorsteinn Sæmundsson. „Hvað eru aurskriður og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn, 18. janúar 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80904.
Þorsteinn Sæmundsson. (2021, 18. janúar). Hvað eru aurskriður og hvað veldur þeim? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80904
Þorsteinn Sæmundsson. „Hvað eru aurskriður og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn. 18. jan. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80904>.