Mynd af Miklahvelli er oft sýnd sem trekt frá upphafinu eins og rof á blöðru. Út um hvert allt lak. Gengu ekki efnisstrókar í allar áttir frá Miklahvelli eins og við ímyndum okkur venjulega sprengingu?Samkvæmt þekkingu nútímavísinda miðast upphaf alheimsins við það sem nefnt er Miklihvellur (e. Big Bang). Þá tók óendanlega þétt frumástand að þenjast út á örskömmum tíma. Þetta gerðist fyrir um það bil 14 milljörðum ára. Velþekktar skýringarmyndir af Miklahvelli gera tilraun til að lýsa þessari útþenslu. Við Miklahvell mynduðust bæði rúm og tími og útþenslan er vissulega í allar áttir, eins og spyrjandi nefnir. Skýringarmyndin líkist trekt af því að verið er að reyna að lýsa útþenslu sem fram fer í fjórum víddum (þrjár rúmvíddir plús tími) með mynd í tvívíðum fleti (til dæmis á pappír). Myndina er því rétt að skoða í því ljósi að hún er eins konar snið í gegnum hið fjórvíða tímarúm. Mynd:
- Timeline of the Universe Image. (Sótt 6.01.2021).