1) Ágúst: Maður hefur heyrt mikið frá fólki að COVID-19 sé ekkert hættulegri heldur en inflúensan og það eigi bara að láta faraldurinn ganga yfir. Eru til einhver samanburður á milli, sem er hægt að vísa í, takk fyrir? 2) Sigríður: Hversu margir látast úr árvissri flensu í samanburði við COVID-19 á heimsvísu árið 2020?Í ýtarlegu svari við spurningunni Hver er munurinn á flensu og COVID-19? er fjallað sérstaklega um vandann við að bera saman fjölda tilfella og dauðsfalla ólíkra faraldra. Við bendum lesendum sem vilja kynna sér málið vel að lesa það svar, þar er einnig að finna heimildir fyrir því sem hér kemur fram. Heimsfaraldur COVID-19 er iðulega borinn saman við fyrri heimsfaraldra inflúensu. Ef það er gert á þann hátt að leiðrétta fyrir aldri, meðferðarúrræðum og aðstæðum hverju sinni, benda nær öll gögn til þess að COVID-19 sé mun skæðari sjúkdómur en inflúensur sem valdið hafa heimsfaröldrum. Hér ber þó að hafa í huga að samanburður á heimsfaraldri sem enn stendur yfir og heimsfaraldri sem er yfirstaðinn er ómögulegur. Ekki er hægt að meta endanlegan fjölda tilfella og dauðsfalla smitsjúkdóms í miðjum faraldri.

Talið er að árlega deyi 250.000 - 650.000 af völdum árstíðabundinnar flensu en þegar þetta svar er birt hafa rúmlega 1.400.000 dauðsföll af völdum COVID-19 verið staðfest. Heimskort sem sýnir fjölda dauðsfalla eftir löndum á hverja milljón íbúa. Kortið sýnir stöðuna 28. nóvember 2020.
- File:COVID-19 Outbreak World Map Total Deaths per Capita.svg - Wikimedia Commons. (Sótt 30.11.2020). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-ShareAlike 4.0 International — CC BY-SA 4.0.