Hvað er stríðsglæpamaður? Hvað þarftu að vera búinn að gera til þess að vera þekktur sem stríðsglæpamaður?Einfaldast er að svara spurningunni þannig að stríðsglæpamenn eru þeir sem hafa verið sakfelldir fyrir stríðsglæpi af viðurkenndum dómstól. Hér á landi mætti þess vegna vísa til stríðsglæpamanna sem þeirra sem Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur sakfellt. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn var settur á laggirnar árið 1998 eftir að 120 ríki samþykktu hina svokölluðu Rómarsamþykkt. Íslenska ríkið er eitt af dyggum stuðningsríkjum dómstólsins. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag er þó ekki jafn vinsæll í löndum á borð við Bandaríkin, Kína og Rússland sem hafa kosið að gerast ekki aðildarríki. Árið 2018 lögfesti Alþingi lög um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Þar eru verknaðarlýsingar á hinum ýmsu glæpum og refsingar tiltaldar sem veita dómstólum oftast ráðrúm til að dæma þá sem gerast brotlegir í ævilanga fangelsisvist. Stað- og atburðabundnir stríðsglæpadómstólar hafa einnig verið settir á laggirnar í kjölfar hryllilegra atburða. Réttarhöldin í Nürnberg eftir helförina eru dæmi um slíkt. Líklega geta langflestir sammælst um að yfirmenn í þriðja ríkinu hafi verið stríðsglæpamenn, hvort sem réttað hefði verið yfir þeim eða ekki. Í því samhengi má einnig nefna Tókýó-réttarhöldin og ICTR-réttarhöldin í kjölfar þjóðarmorðanna í Rúanda. Helstu alþjóðlegu réttarheimildir á sviði stríðsglæpa eru Genfarsamningarnir og Rómarsamþykktin 1998. Mynd:
Hvað er stríðsglæpamaður?
Útgáfudagur
21.7.2021
Spyrjandi
Bríet Dalla
Tilvísun
Baldur S. Blöndal. „Hvað er stríðsglæpamaður?“ Vísindavefurinn, 21. júlí 2021, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80512.
Baldur S. Blöndal. (2021, 21. júlí). Hvað er stríðsglæpamaður? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80512
Baldur S. Blöndal. „Hvað er stríðsglæpamaður?“ Vísindavefurinn. 21. júl. 2021. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80512>.