Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvenær komu Íslendingasögurnar fyrst út á nútímaíslensku? Hver réðst í þá útgáfu og af hverju?
Íslendingasögurnar hafa líkast til fyrst verið ritaðar á þrettándu og fjórtándu öld. Elstu varðveittu handritin eru frá þrettándu öld, brot úr Egils sögu á AM 162 A θ [þeta] fol. frá um 1250 og brot úr Laxdæla sögu á AM 162 D 2 fol. frá um 1250-1300. Heillegustu og mikilvægustu handrit margra sagnanna eru frá fjórtándu og fimmtándu öld, til dæmis Reykjabók Njáls sögu, AM 468 4to, frá upphafi fjórtándu aldar og hin mikla Möðruvallabók, AM 132 fol. frá miðri fjórtándu öld sem geymir ellefu Íslendinga sögur. Sumar þeirra eru þó aðeins varðveittar í talsvert miklu yngri handritum, til dæmis Hrafnkels saga sem einkum er varðveitt í handritum frá sautjándu öld.
Sú iðja að handskrifa upp sögur eftir öðrum handritum (eða jafnvel prentuðum bókum eftir að þær komu til sögunnar) var iðkuð hér á landi alveg frá elstu varðveittu handritum á tólftu öld og fram undir nútíma.[1] Magnús Jónsson (1835-1922), bóndi í Tjaldanesi í Dalasýslu, skrifaði upp gríðarlegan fjölda sagna sem varðveist hafa í tugum handrita frá árunum 1874 til 1916 og er hann líklega síðasti fulltrúi þessarar aldagömlu handritahefðar.[2]
Íslendingasögurnar eru því varðveittar í mörgum afar misgömlum handritum, allt frá þrettándu öld og fram á sautjándu og átjándu öld og jafnvel frá því um 1900. Mál og stafsetning á þessum handritum ber jafnan ýmis merki síns samtíma. Íslenskt mál tók talsverðum breytingum frá þrettándu öld og fram á þá sautjándu eða átjándu og því getur málmunur verið allnokkur.
Þau handrit Íslendingasagna sem varðveist hafa eru öll uppskriftir af öðrum handritum; ekkert þeirra er frumrit, svo vitað sé. Íslendingasögur voru skrifaðar upp með það fyrir augum að þær yrðu lesnar upp í heyranda hljóði. Skrifari sem skrifaði upp eftir gömlu handriti með fornlegu máli hefur venjulega lagað málið að langmestu leyti að sínu eigin máli og máli væntanlegra áheyrenda. Öldum saman hefur hver kynslóð því skrifað sögurnar upp og lesið á sínu eigin máli.
Handritið AM 468 4to er betur þekkt sem Reykjabók og er talið hafa verið skrifað um eða stuttu eftir 1300. Bókin er að mestu verk eins óþekkts skrifara. Reykjabók telst með merkilegustu íslensku handritunum þar sem hún er eitt elsta handrit Njáls sögu og geymir heillegasta texta sögunnar sem varðveist hefur.
Elstu prentuðu útgáfur Íslendingasagna fylgdu þessari aldagömlu hefð — og mætti, til hægðarauka, nefna þetta alþýðlegu hefðina í útgáfum fornsagna. Björn Markússon (1716-1791) lögmaður reið á vaðið árið 1756 með fornsagnaútgáfu í tveimur þykkum bindum sem prentaðar voru á Hólum í Hjaltadal undir heitunum Nokkrir margfróðir söguþættir og Ágætar fornmannasögur. Björn kveðst í inngangi Ágætra fornmannasagna þjóna alþýðunni með þessum útgáfum og tilgangurinn er tvíþættur, ef marka má undirtitil hinnar fyrrnefndu og inngang Björns fyrir þeirri síðarnefndu: Annars vegar eru þær gefnar út lesendum „til leyfilegrar skemmtunar og dægrastyttingar“ og hins vegar „forfeðrum vorum til sæmdar, er sæmdarverkin eftir sig létu.“ Texti sagnanna ber ýmis merki máls átjándu aldar. Til dæmis hefur fornafnið hann þágufallsmyndina hönum í stað honum og fornafnið hver er oftast hvör. Stafsetningin er líka yfirleitt sú stafsetning sem almenn var á þessum tíma. Hið sama má segja um fyrstu útgáfu Egils sögu sem prentuð var í Hrappsey 1782 undir heitinu Sagan af Egli Skallagrímssyni.
Jafnframt þessu þróaðist önnur aðferð við útgáfur fornra texta þar sem leitast var við með rannsóknum og samanburði á fjölda handrita að finna elsta og besta textann og færa hann lesendum með sem mestri nákvæmni; þetta mætti til hægðarauka nefna (texta)fræðilegu hefðina í útgáfum fornsagna. Þessarar hugsunar gætir þegar í útgáfum fornmenntafrömuðarins Þórðar Þorlákssonar (1637-1697) Skálholtsbiskups sem fyrstur prentaði fornsögur á Íslandi, nær sjötíu árum á undan Birni Markússyni sem áður var nefndur. Þórður biskup fékk einu prentsmiðju landsins flutta frá Hólum í Skálholt og hóf metnaðarfullt útgáfustarf.[3] Fyrstar gaf hann út Landnámabók, Íslendingabók og Kristni sögu 1688 og því næst Ólafs sögu Tryggvasonar í tveimur bindum 1689-1690. Í þessum útgáfum hefur textinn ýmis forn einkenni, bæði í máli og stafsetningu, sem hafa verið framandi lesendum undir lok sautjándu aldar. Nefna má sem dæmi að oft er ritað „oc“ í stað „og“, „va“ í stað „vo“ í orðum eins og svo, vopn og bókstafurinn „þ“ er stundum notaður í inn- og bakstöðu orða, til dæmis „verþa“ og „raþ“ fyrir verða og ráð. Þessi einkenni (og fjölmörg önnur sambærileg) eru ættuð úr gömlum handritum en birtast þó hvergi nærri kerfisbundið í Skálholtsútgáfunum.
Þórður Þorláksson (1637-1697) Skálholtsbiskups prentaði fyrstur fornsögur á Íslandi. Hér sést titilsíða Landnámabókar sem Þórður gaf út 1688.
Þessari textafræðilegu nálgun óx mjög fiskur um hrygg á átjándu og nítjándu öld, ekki síst fyrir tilverknað Árna Magnússonar (1663-1730), prófessors við Kaupmannahafnarháskóla, sem á fáum áratugum náði saman gríðarlega stóru safni íslenskra miðaldahandrita og lagði með söfnun sinni og fræðastarfi grunninn að rannsóknum í íslenskri textafræði þar sem kostað skyldi kapps um að finna elsta og besta textann með samanburði allra tiltækra handrita.[4]
Fyrsta prentaða útgáfa Njáls sögu, Sagan af Njáli Þorgeirssyni og sonum hans, sem Ólafur Ólafsson Olavius (1741-1788) bjó til prentunar og kom út í Kaupmannahöfn 1772 var mjög í þessum anda. Þar var byggt á texta handritsins AM 468 4to, Reykjabókar, frá fyrsta fjórðungi fjórtándu aldar. Texti prentuðu útgáfunnar ber fjölmörg einkenni fjórtándu aldar máls og stafsetningar en skipulegar er gengið frá textanum en í Skálholtsútgáfunum frá 1688-1690 og stafsetning að miklu leyti samræmd til fjórtándu aldar máls. Þarna er til dæmis prentað „maðr“, „ok“, „at“ í stað „maður“, „og“, „að“. Í anda fjórtándu aldar stafsetningar er hér notaður bókstafurinn „ð“ og er þetta fyrsta íslenska prentaða bókinn þar sem hann er notaður en hann hafði ekki sést í íslensku ritmáli síðan í byrjun fimmtándu aldar.[5]
Hér eru líka prentuð neðanmáls valin lesbrigði úr öðrum handritum. Til dæmis má nefna að í 35. kafla Njáls sögu segir frá því er Hallgerður og Gunnar þágu heimboð Bergþóru og Njáls á Bergþórshvoli. Þegar Bergþóra skipaði til sætis bað hún Hallgerði að víkja fyrir Þórhöllu Ásgrímsdóttur. Hallgerður neitaði og sagði, samkvæmt AM 468 4to, Reykjabók: „Hvergi mun ek þoka, því at engi hornreka vil ek vera.“ Í öðrum handritum stendur ýmist hornkona eða hornkerling í stað hornreka og prentar Ólafur Olavius þessi lesbrigði neðanmáls. Útgáfa Ólafs Olaviusar á Njáls sögu 1772 var ekki beint sérstaklega til íslenskrar alþýðu, eins og meðal annars má sjá á þeirri ráðstöfun að birta formála útgáfunnar á latínu; þessi útgáfa var fyrst og fremst fræðileg útgáfa ætluð fræðimönnum.
Fræðilegum útgáfum fornra texta, þar á meðal Íslendingasagna, fjölgaði mjög á nítjándu öld, textafræðinni fleytti fram og þekking á handritum og textum jókst jafnt og þétt. Alþýðlega hefðin við textaútgáfur lifði þó áfram jafnframt hinni textafræðilegu hefð. Útgáfa Ólafs Olaviusar á Njáls sögu var prentuð aftur í Viðey 1844 að undir forystu Ólafs Stephensens (1791-1872) (Sagan af Njáli Þorgeirssyni og sonum hans 1844). Þar ber þó svo við að textinn er færður í nútímabúning og mál og stafsetning hafa almennt á sér yfirbragð nítjándu aldar. Enginn formáli er fyrir bókinni (hvorki á latínu né íslensku) og engin lesbrigði eru prentuð. Þessi útgáfa er fyrst og fremst ætluð alþýðu manna. Þessi alþýðuútgáfa Ólafs Stephensens hlaut harðan dóm í „Bókafregn“ í tímaritinu Fjölni (8. árgangi, 1845, bls. 58-59), ekki síst sú ráðstöfun Ólafs að færa mál og stafsetningu til nútímahorfs: „Orðin eru víðast hvar rituð upp á viðeysku, svo að sagan lítur nú út, að stafsetningunni til, eins og hún væri samin á dögum Sekretéra O.M. Stephensens …“ segir „H.F.“, sem að líkindum er Halldór Kr. Friðriksson (1819-1902), kennari við Lærða skólann í Reykjavík, og einn hinna yngri Fjölnismanna.
Þessar tvær útgáfuhefðir, (1) hin alþýðlega sem er beint framhald á þeirri aldagömlu íslensku hefð að hver kynslóð lesi fornsögurnar á sínu máli, og (2) hin fræðilega þar sem texti gamalla handrita er í öndvegi hafa lifað hvor við hlið annarrar allar götur frá því farið að prenta fornsögur á íslensku og til nútíma.
Það er aldagömul hefð fyrir því að hver kynslóð lesi Íslendingasögurnar á sínu eigin máli - nútímamáli síns tíma.
Ólík sjónarmið og aðferðir hafa birst innan hvorrar hefðar um sig. Útgefendur alþýðlegra útgáfna hafa til að mynda gengið misjafnlega langt í að laga forna texta að nútímamáli og útgefendur fræðilegra útgáfna hafa gengið misjafnlega langt í því að birta lesendum texta fornra handrita. Segja má að hinar fræðilegu útgáfur hafi á nítjándu öld fallið í tvo farvegi.
Annars vegar er sú aðferð að prenta texta með stafsetningu fornra handrita. Þetta eru oft nefndar stafréttar eða „diplómatískar“ útgáfur. Þar var trúnaður við frumheimildirnar (handritin) í öndvegi en textinn varð fyrir vikið fremur óárennilegur fyrir þá sem ekki voru handgengnir stafsetningu miðaldahandrita og því ólíklegur til að höfða til breiðs lesendahóps.
Hins vegar þróaðist smám saman á nítjándu öld aðferð til að bregðast við þessum vanda, gera textann læsilegan en varðveita jafnframt helstu máleinkenni forníslensku á ritunartíma margra fornsagnanna á þrettándu öld með því að prenta forna texta með samræmdri fornmálsstafsetningu. Þessi stafsetning tók mið af íslensku máli eins og heimildir bentu til að það hefði verið á þrettándu öld, en svo reglulega og samræmda stafsetningu er þó hvergi að finna á miðaldahandritum; hún er hrein nítjándu aldar smíð. Danski fræðimaðurinn Ludvig F.A. Wimmer (1839-1920) átti drjúgan þátt í að þróa þessa samræmdu fornmálsstafsetningu og festa hana í sessi með norrænni lestrarbók sinni, Oldnordisk læsebog, sem kom út í fjölmörgum útgáfum frá 1870 og áfram og var áratugum saman mikilvæg kennslubók í norrænu víða um Norðurlönd.[6]
Skiptar skoðanir hafa jafnan verið á ágæti þessara aðferða og aðferðir almennt við útgáfu fornra texta.[7] Hæst risu deilur um þær líklega þegar Halldór Kiljan Laxness, Ragnar Jónsson bókaútgefandi (kenndur við Smára) og Stefán Ögmundsson prentari réðust í útgáfu fornsagna með nútímastafsetningu um og upp úr 1940 en Halldór hafði áður gagnrýnt hina nýju útgáfuröð Hins íslenzka fornritafélags á fornsögum með samræmdri stafsetningu fornri (Íslenzk fornrit). Alþingi samþykkti þá lög um einkarétt ríkisins á útgáfu íslenskra rita sem samin hefðu verið fyrir 1400 og skyldi kennslumálaráðherra úthluta leyfum. Halldór, Ragnar og Stefán voru kærðir fyrir brot á þessum lögum og fór svo eftir nokkurn málarekstur að Hæstiréttur Íslands fékk málið til úrskurðar og þar voru þeir sýknaðir 1943.[8] Mun þetta vera í eina skiptið sem Hæstiréttur Íslands hefur skorið úr ágreiningi sem sprottinn er af stafsetningu.
Samandregið er svarið við spurningunum: Hvenær komu Íslendingasögurnar fyrst út á nútímaíslensku? Hver réðst í þá útgáfu og af hverju? Þegar árið 1756 með útgáfum Björns Markússonar eða nánast frá því farið var að prenta fornsögur á Íslandi. Útgáfur Björns Markússonar 1756 voru í aðalatriðum á máli átjándu aldar og í anda þeirrar aldagömlu hefðar að hver kynslóð læsi Íslendingasögurnar á sínu eigin máli. Sú hefð hefur haldið áfram til nútíma. Fyrir Birni vakti að lesendur hefðu af þeim „leyfilega skemmtun“ en einnig vildi hann heiðra minningu forfeðranna sem létu þessar sögur eftir sig.
Tilvísanir:
^ Sjá greinargóða lýsingu Jóns Karls Helgasonar 1998:115-168,
Ritaskrá
„Bókafregn“ eftir H.F [Halldór Kr. Friðriksson?]. 1845. Fjölnir 8:57-76.
Driscoll, M.J. 2013. „The Long and Winding Road: Manuscript Culture in Late Pre-Modern Iceland.“ Í White field, black seeds: Nordic literary practices in the long nineteenth century, ritstj. Anna Kuismin og M. J. Driscoll, 50-63. Helsinki: Finnish Literature Society. Opinn aðgangur: DOI https://doi.org/10.21435/sflit.7
Guðrún Ingólfsdóttir. 1998. „„En að sá helgi stíll saurgist af sögum.“ Útgáfustarf Þórðar biskups Þorlákssonar.“ Í Frumkvöðull vísinda og mennta: Þórður Þorláksson biskup í Skálholti, ritstj. Jón Pálsson, 161-177. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Haraldur Bernharðsson. 2005. „Samræmt nútímamál á fornum heimildum: Um málstefnu við útgáfu fornra texta.“ Skírnir 179:181-97.
Jón Helgason. 1958. Handritaspjall. Reykjavík: Mál og menning.
Jón Karl Helgason. 1998. Hetjan og höfundurinn: Brot úr íslenskri menningarsögu. Reykjavík: Heimskringla.
Már Jónsson. 1998a. Árni Magnússon: Ævisaga. Reykjavík: Mál og menning.
Már Jónsson. 1998b. „Þórður biskup Þorláksson og söfnun íslenskra handrita á síðari hluta 17. aldar.“ Í Frumkvöðull vísinda og mennta: Þórður Þorláksson biskup í Skálholti, ritstj. Jón Pálsson, 179-196. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Már Jónsson. 2012. Arnas Magnæus philologus (1663-1730). The Viking Collection 20. University Press of Southern Denmark.
Stefán Karlsson. 1989. „Tungan.“ Í Íslensk þjóðmenning, ritstj. Frosti F. Jóhannesson, 6:1-54. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.
Wimmer, Ludv. F. A. 1877. Oldnordisk læsebog med anmærkninger og ordsamling. København.
Haraldur Bernharðsson. „Hvenær komu Íslendingasögurnar fyrst út á nútímaíslensku?“ Vísindavefurinn, 20. október 2020, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80114.
Haraldur Bernharðsson. (2020, 20. október). Hvenær komu Íslendingasögurnar fyrst út á nútímaíslensku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80114
Haraldur Bernharðsson. „Hvenær komu Íslendingasögurnar fyrst út á nútímaíslensku?“ Vísindavefurinn. 20. okt. 2020. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80114>.