Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eftir því sem best er vitað eru engir ónæmir fyrir veirunni sem veldur COVID-19, nema mögulega þeir sem hafa fengið hana. Félagslegar aðstæður gera það þó að verkum að áhrif hennar og afleiðingar snerta fólk með ólíkum hætti. Veiran sjálf gerir ekki upp á milli fólks eftir félagslegum breytum en margt bendir hins vegar til þess að faraldurinn leiði frekar í ljós og ýti undir félagslegt og efnahagslegt ójafnrétti sem til staðar er í heiminum.
Þann 9. apríl 2020 biðlaði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, til allra ríkisstjórna að hafa hagsmuni kvenna og stúlkna í brennidepli í tilraunum sínum til að bregðast við áhrifum nýju kórónuveirunnar. Hann sagði jafnframt að jafnrétti kynjanna og kvenréttindi væru frumskilyrði þess að komast saman í gegnum þennan faraldur. Sameinuðu þjóðirnar gáfu í kjölfarið út skýrslu sem greinir þau atriði sem gætu hindrað framgang jafnréttis sökum kórónuveirunnar. Hægt er að skipta helstu áskorunum sem konur standa sérstaklega frammi fyrir á farsóttartímum í fjóra flokka. Þeir eru efnahagsleg áhrif, heilsufarsáhrif, ólaunuð vinna og kynbundið ofbeldi.
Hér verður stuttlega gert grein fyrir þessum flokkum sem skýrsla Sameinuðu þjóðanna tekur fyrir, þó svo að áskoranirnar sem konur, sem og aðrir undirskipaðir hópar, þurfa að kljást við séu ótal fleiri.
Í COVID-19-faraldrinum hafa margar konur (líkt og karlar) þurft að færa vinnustaðinn heim.
Heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar mun koma til með að raska efnahagslífi kvenna með öðrum hætti en karla. Alla jafna hafa konur lægri laun en karlar, eru síður í stöðugum störfum og eru meirihluti einstæðra foreldra. Á Íslandi vinna konur að jafnaði færri tíma en karlar og eru líklegri til að vinna hlutastörf. Það getur þannig verið erfiðara fyrir þær að takast á við þann efnahagslega skell sem kórónuveirufaraldurinn getur haft í för með sér. Einnig eiga þær frekar á hættu að vera sagt upp störfum, því hingað til hefur mestur niðurskurður verið á þeim störfum þar sem konur eru í miklum meirihluta, til dæmis í þjónustustörfum. Í ljósi fyrri reynslu af heimsfaröldrum og nýjum gögnum má áætla að efnahagskreppan sem fylgir COVID-19 muni hafa langvarandi áhrif á atvinnulíf kvenna og sérstaklega alvarlegar afleiðingar fyrir konur sem nú þegar búa undir fátæktarmörkum.
Heilsufarsvandamál eru önnur hjá konum en körlum, þær eru til dæmis með sérstakar þarfir á sviði kyn- og æxlunarheilbrigðis. Í heimsfaraldri sem þessum, þar sem veiran og afleiðingar hennar fá nánast alla athygli heilbrigðiskerfisins, er alltaf hætta á að önnur heilsufarsvandamál sitji á hakanum. Þegar heilbrigðiskerfið hefur varla undan vegna álags verður erfiðara fyrir konur að sækja sérstakar meðferðir og heilbrigðisþjónustu. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér víða um heim og aukið tíðni til dæmis fæðingardauða og fæðingarsjúkdóma, auk kynsjúkdóma, en slíkir sjúkdómar hafa oftast alvarlegri afleiðingar fyrir konur en karla. Konur eru einnig sérstaklega berskjaldaðar fyrir nýju kórónuveirunni, því á heimsvísu eru konur 70% þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem líklegastir eru til að vera í framlínunni og sinna þeim sjúku. Einnig eru konur í miklum meirihluta þeirra sem vinna við þjónustustörf á heilbrigðisstofnunum, til dæmis við þrif og þvott og eru þannig útsettari fyrir veirunni.
Víðast hvar í heiminum eru konur í meirihluta þeirra sem sinna heilbrigðisþjónustu og eru því útsettari fyrir sjúkdómum eins og COVID-19.
Konur sinna þó ekki aðeins meirihluta þjónustu- og umönnunarstarfa í heilbrigðiskerfinu heldur einnig almennt inni á heimilunum. Kórónuveirufaraldurinn hefur leitt í ljós hversu ójöfn verkaskipting er á heimilum og mikilvægi ólaunaðrar vinnu kvenna í daglegu lífi fólks. Álag inni á heimilum hefur aukist mikið í faraldrinum. Skólum var víða lokað, rekstur heimilisins varð umfangsmeiri þar sem fjölskyldan var öll lokuð inni á heimilinu, og eins þurfti að sinna veikum og öldruðum fjölskyldumeðlimum. Þessi auka vinna er að miklu leyti á herðum kvenna en fyrir faraldurinn var talið að konur sinntu þrisvar sinnum meiri ólaunaðri vinnu en karlar. Margar konur þurftu auk starfs síns að hafa meiri umsjón með börnum sínum og axla stærri hluta heimilisstarfa. Slíkt álag getur orðið til þess að þær þurfi að hætta í launaðri vinnu.
Ofan á það mikla álag sem aukin heimilisstörf leggja á konur getur heimilið einnig verið hættulegur staður fyrir sumar þeirra. Á farsóttartímum, þar sem efnahagsleg áhrif og andleg streita geta bæst ofan á samskipta- og ferðatakmarkanir, eykst ofbeldi inni á heimilum. Hættan fyrir konur sem búa við ofbeldi í nánum samböndum verður enn meiri en áður þar sem þær eru fastar inni á heimilum með ofbeldismönnum sínum og komast kannski ekki burt vegna útgöngubanns eða annarra takmarkana. Víða um heim hafa komið fram tölur um aukningu ofbeldisbrota gegn konum en þó er erfitt að átta sig strax á umfangi þess þar sem aðstæður gera það að verkum að erfitt getur reynst fyrir konur að tilkynna brotin eða leitar sér hjálpar.
Margt bendir til þess að kynjasjónarmið skipti talsverðu máli í umræðunni um COVID-19. Gera þarf sérstakar ráðstafanir til að komast til móts við konur og þeirra sérstöku hagsmuni sem þurfa að vera í forgrunni viðbragða stjórnvalda, samanber orð António Guterres. Hvort það verði eða hafi verið nægilega vel gert, er hins vegar önnur spurning.
Heimildir:
Þetta svar er hluti af verkefninu Heimspekilegar áskoranir á farsóttartímum þar sem nemar í heimspeki eða nýútskrifaðir heimspekingar skoða ýmislegt í tengslum við COVID-19-faraldurinn út frá heimspekilegu sjónarhorni. Verkefnið er unnið undir handleiðslu Eyju Margrétar Brynjarsdóttur, prófessors í heimspeki og hagnýtri siðfræði, Finns Ulf Dellsén, dósents í heimspeki, og Vilhjálms Árnasonar, prófessors í heimspeki og formanns stjórnar Siðfræðistofnunar.
Spurningu Eddu er hér svarað að hluta.
Ásthildur Gyða Garðarsdóttir. „Skipta kynjasjónarmið máli í umræðunni um COVID-19?“ Vísindavefurinn, 10. september 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79931.
Ásthildur Gyða Garðarsdóttir. (2020, 10. september). Skipta kynjasjónarmið máli í umræðunni um COVID-19? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79931
Ásthildur Gyða Garðarsdóttir. „Skipta kynjasjónarmið máli í umræðunni um COVID-19?“ Vísindavefurinn. 10. sep. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79931>.