Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiLögfræðiEr það brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að banna lögráða fólki að kaupa áfengi?
Eru áfengislögin á Íslandi brot á stjórnarskrá landsins? Í lögunum er kveðið á um að ekki megi selja eða afhenda þeim áfengi sem eru yngri en 20 ára. Á Íslandi er fólk lögráða 18 ára. Er það þá ekki brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að mismuna fólki sem er orðið lögráða um aðgang að áfengi?
Það er rétt sem fram kemur hjá spyrjanda að fólk verður lögráða 18 ára og öðlast þá öll helstu persónuréttindi, eins og þau að mega ganga í hjónaband og ráða sínum eigum og gjörðum sjálft. Sumum gæti því þótt skjóta skökku við að lögráða einstaklingum sé ekki leyft að kaupa áfenga drykki.
Löggjafinn hefur lengi sett ýmis lög um meðferð, sölu og hvers kyns umsýslu áfengra drykkja. Allt frá því að banna innflutning og sölu þess, bann við tilteknum tegundum áfengis og margt fleira. Árið 1969 var heimilaður áfengiskaupaaldur færður niður úr 21 ári í 20 ár. Þetta var gert samhliða lækkun annarra persónuréttinda eins og hjúskaparaldri, lögræðisaldri og fleiri réttinda. Á þessum tíma var hinn algildi lögræðisaldur 20 ár og í samræmi við áfengiskaupaldurinn. Með lögræðislögunum sem sett voru árið 1997 var lögræðisaldurinn síðan færður í 18 ár.
Áfengi er um margt ólíkt öðrum vörum sem ganga kaupum og sölum, til að mynda getur neysla þess haft ýmsar neikvæðar afleiðingar, bæði samfélagslegar og heilsufarslegar. Rannsóknir bendi til þess að því fyrr sem fólk byrjar að neyta áfengis því meiri líkur eru á að neyslan verði skaðleg, bæði heilsufars- og félagslega.
Áfengi er að ýmsu leyti ólíkt mörgum öðrum neysluvörum sem ganga kaupum og sölum. Neysla þess í óhófi getur haft í för með sér ýmsar neikvæðar afleiðingar, bæði samfélagslegar og heilsufarslegar. Þetta hafa margar skýrslur leitt í ljós og kemur einnig fram á vefsíðu Embættis landlæknis þar sem segir: „Áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur er hér um að ræða efni sem hefur áhrif á vitund, hegðun og skynjun og getur valdið neytandanum og öðrum í umhverfi hans skaða.“
Ýmis lög kveða á um takmarkanir á því hverjir megi kaupa og sýsla með hættulegan varning, til að mynda skotvopn, sprengiefni og lyf. Þar geta mismunandi röksemdir legið að baki. Hvað áfengi varðar eru sjónarmiðin fyrst og fremst af lýðheilsulegum toga, enda bendir margt til þess að það hafi neikvæð áhrif á heilastarfsemi að byrja að neyta áfengis á meðan heilinn er enn að ná fullum þroska.
Lögbundin persónuréttindi miðast ekki öll við 18 ára aldurinn þó mörg hinna þýðingamestu komi á því tímamarki. Í umferðarlögunum er aragrúi aldurstakmarka, börnum yngri en 9 ára er meinað að hjóla á akbraut án þess að vera í fylgd með 15 ára einstaklingi. Á 15 ára afmælinu er reiðhjólamönnum enn fremur leyft að reiða börn yngri en 7 ára, séu þeim ætluð sérstök sæti og þess gætt að þeim stafi ekki hætta af teinunum hjólanna. Skilyrði fyrir veitingu ökuleyfis miðast við 17 ára einstaklinga og heimild til að leiðbeina í æfingaakstri miðað við 24. afmælisdaginn. Einnig má finna dæmi um fleiri réttindi sem einstaklingur öðlast ekki fyrr en árum eftir lögræði, þar má til dæmis nefna lög um meðferð einka- og sakamála þar sem gerð er krafa um að meðdómsmenn séu að minnsat kosti 25 ára, túlkar og matsmenn þurfa að vera 20 ára og stefnuvottar 25 ára. Þetta er einungis lítill hluti af þeim aldurstakmörkunum sem miðast við annað tímamark en 18 ára aldurinn.
Í heildstæðri úttekt á áfengislöggjöfinni frá 2010 taldi starfshópur fjármálaráðuneytisins eftirfarandi vera rök með og á móti lækkun áfengiskaupaaldurs í 18 ár:
Rök með lækkun áfengiskaupaaldurs:
Lækkunin samræmist sjálfræðisaldrinum
Foreldrum getur reynst erfitt að hafa afskipti af áfengisneyslu barna sinna eftir að þau verða lögráða
18 ára áfengiskaupaaldur er í samræmi við löggjöf á Norðurlöndunum og öðrum nágrannaþjóðum
Það er erfitt að framfylgja 20 ára lágmarksaldrinum á vínveitingastöðum þar sem 18 ára er heimill aðgangur. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. WHO) hefur hvatt til þess að lágmarksaldur áfengiskaupa sé virtur. 80% ungmenna á aldrinum 18-20 ára hefur neytt áfengis
Rök á móti lækkun áfengiskaupaaldurs:
Lækkun áfengiskaupaaldurs samræmist ekki stefnumótun sem ríkisstjórnin samþykkti 1996 sem hefur verið leiðandi í íslensku forvarnastarfi en markmið hennar var að draga úr áfengisneyslu ungmenna.
WHO hefur bent á að samkvæmt 132 rannsóknum sem gerðar voru á árunum 1960-1999 komi fram sterkar vísbendingar um að lækkun áfengisaldurs leiði til aukinnar neyslu og umferðarslysa
Lækkunin getur haft í för með sér að enn yngra fólk eigi greiðari aðgang að áfengi og þá sérstaklega í framhaldsskólum. Lækkunin gæti leitt til meiri neyslu áfengis hjá börnum yngri en 16 ára. Rannsóknir bendi til þess að því fyrr sem fólk byrjar að neyta áfengis því meiri líkur eru á að neyslan verði skaðleg, bæði heilsufars- og félagslega.
Fjöldi laga setur aldursskilyrði á hin ýmsu réttindi fólks. Löggjafinn hefur þó ekki sett neinn hámarksaldur á áfengiskaup.
Almenna jafnræðisreglan er lögfest í 65. gr. stjórnarskrárinnar en hún kveður á um að allir skuli jafnir fyrir lögum og að ekki megi mismuna fólki með tilliti til trúarbragða, kynferðis, skoðana, litarháttar og fleira. Mismunun verður að vera, í einhverjum skilningi, byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Aldur kemur ekki fyrir í upptalningu 65. greinarinnar enda er að finna í lögum fjölmörg aldursskilyrði sem byggja á málefnalegum grundvelli. Í áfengislögunum er skýr regla um að ekki megi selja einstaklingum yngri en 20 ára áfengi. Þrátt fyrir að þessi regla sé ekki samstíga öðrum reglum um aldurstakmark annarra persónuréttinda er hún skýr, fyrirsjáanleg og gengur jafnt yfir alla.
Lög mismuna fólki í hvívetna vegna stöðu þeirra í samfélaginu, það er ekki brot á jafnræðisreglunni þó atvinnulaus maður fái atvinnuleysisbætur á meðan sá sem er í föstu starfi fær ekki sambærilega greiðslu. Opinberir starfsmenn njóta réttinda og bera skyldur á grundvelli laga sem ekki er kveðið á um fyrir aðra starfsmenn og það telst ekki andstætt 65. gr. stjórnarskrárinnar. Afstaða löggjafans til aldursstakmarkana þeirra sem kaupa áfengi er greinilega sú að dómgreind 18 ára einstaklings og 20 ára séu ekki að öllu leyti sambærilegar og aðstæður þessarra tveggja hópa séu það ekki heldur. Auðvitað má þó deila um það hvort nægilega málefnalegar forsendur standi að baki aldurstakmarkinu og vert er að ræða og meta það reglulega með hliðsjón af nýjum gögnum og rannsóknum.
Heimildir:
Baldur S. Blöndal. „Er það brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að banna lögráða fólki að kaupa áfengi?“ Vísindavefurinn, 10. júní 2022, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79832.
Baldur S. Blöndal. (2022, 10. júní). Er það brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að banna lögráða fólki að kaupa áfengi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79832
Baldur S. Blöndal. „Er það brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að banna lögráða fólki að kaupa áfengi?“ Vísindavefurinn. 10. jún. 2022. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79832>.