Sæll Jón Már, ég tók eftir því að það var geitungadrottning að byrja að gera sig heimakomna í kassa sem eg er með á lokuðum svölum. Ég sá að hún fór ofan í kassan og hef hana sterklega grunaða um að byggja sér þar bú. Ég hinsvegar spreyjaði hana vel með eitri og hún drapst. Ég hef ekki þorað að opna kassann. Á ég von á að þar séu að dafna geitunar eða þarf drottninguna til að halda lífi í búinu?Lífsferill geitunga er í stuttu máli þannig drottning vaknar af vetrardvala að vori og hefst þá handa við að byggja bú. Oft gerist þetta um miðjan maí en það fer þó eftir árferði. Samhliða því að byggja búið tekur hún til við að verpa fyrstu eggjunum. Eggin klekjast á stuttum tíma og drottningin elur lirfurnar þar til þær púpa sig. Á þessum tíma, að vori og snemma sumars, má sjá drottningu á ferðinni en eftir að fyrstu geitungarnir, sem allt eru þernur, skríða úr púpunum hættir drottningin öllum öðrum störfum en að verpa og heldur kyrru fyrir í búinu. Þernurnar taka þá við hlutverki drottningarinnar að viðhalda og stækka búið og ala önn fyrir lirfunum.
- Wasp March 2008-3.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Alvesgaspar. Birt undir Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0 Unported leyfi. (Sótt 5.10.2020).