Getur ferðaþjónustan ekki sent reikning til ríkisins vegna aflabrest eins og útgerðir gera, eins og þegar loðnan lét ekki sjá sig við Íslandsstrendur og ég held makríll líka. Á sömu forsendum er ég að meina.Við gerum ráð fyrir að spyrjandi sé að vísa til skaðabótakrafna sjö útgerða á hendur íslenska ríkinu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greindi frá á Alþingi.[1] Ef svo er þá er stutta svarið við spurningunni einfaldlega: Nei, ferðaþjónustan getur ekki gert kröfu um skaðabætur frá íslenska ríkinu vegna „aflabrests“ í ferðaþjónustu. Munurinn á þeim kröfum og hugsanlegri kröfu aðila í ferðaþjónustu er að útgerðarfélögin fengu minni afla úthlutað en þau áttu rétt á samkvæmt lögum sem giltu um það efni. Lögin kváðu á um tilteknar aflaheimildir til makrílveiða á tilteknu tímabili en þessar heimildir voru síðar takmarkaðar á ólögmætum grundvelli af stjórnvöldum með reglugerðum. Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt vegna þessara reglugerða.

Þó aðilar í ferðaþjónustu kunni að hafa væntingar um tiltekinn fjölda ferðamanna er ríkisstjórnin ekki skaðabótaskyld þó ferðmennirnir skili sér ekki til landsins. Lagaumhverfi ferðamannaiðnaðarins og sjávarútvegarsins er gjörólíkt og ríkið hefur engin tök á að úthluta ferðamönnum á sama hátt og það úthlutar aflaheimildum til veiða.
- ^ 1230/150 svar: skaðabótakröfur vegna úthlutunar á heimildum til veiða á makríl - Þingtíðindi - Alþingi. (Sótt 10.09.2020).
- Alþingi. Lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands . (Sótt 08.06.2020).
- Alþingi. Svar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um skaðabótakröfur vegna úthlutunar á heimildum til veiða á makríl. (Sótt 08.06.2020).
- Hæstiréttur. Dómar í málum númer 508 og 509 frá 2018. Sótt 08.06.2020.
- Reglugerðarsafn. Reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2011. (Sótt 08.06.2020).
- File:The Blue Lagoon, Iceland (22111273209).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 9.09.2020). Myndina tók Bryan Ledgard og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0.