Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í ritreglum Íslenskrar málnefndar segir að læknisfræðileg hugtök (sjúkdómar og fleira) séu rituð með litlum upphafsstaf óháð því hvort þau eru dregin af sérheiti eða ekki. Fjallað er um þetta í gr. 1.3.3.2 d í ritreglunum og sýnd dæmi, til dæmis akureyrarveikin, asíuflensa, fuglaflensa, hermannaveiki, inflúensa, liðagigt, langerhanseyjar, stokkhólmsheilkennið og svo framvegis. Undantekning frá meginreglunni er ef læknisfræðilega heitið er skammstöfun rituð með hástöfum, til dæmis COVID-19.
Fjölmörg læknisfræðileg heiti eru leidd af nöfnum og kallast nafnheiti (e. eponyms), til dæmis alzheimers-sjúkdómur, downs-heilkenni og parkinsonsveiki. Dæmi um slík nafnheiti í almennu máli eru röntgengeislun (leitt af nafni þýska vísindamannsins Wilhelm Conrad Röntgen) og bírópenni sem kenndur er við Ungverjann László Biró (sjá Ágústu Þorbergsdóttur 2011). Ef fyrri liður slíks heitis er óaðlagað erlent nafn þá er hann tengdur við síðari lið með bandstriki (sjá gr. 26.1.2 í ritreglunum), til dæmis chihuahua-hundur.
Svonefnd asíuflensa kom fyrst fram í Kína snemma árs 1957. Eins og á við um önnur læknisfræðileg hugtök er heiti sjúkdómsins ritað með litlum upphafsstaf. Myndin er tekin árið 1957 og sýnir sænska sjúklinga með asíuflensu í íþróttasal.
Það að rita skuli öll læknisfræðileg heiti með litlum staf er nýjung í ritreglum Íslenskrar málnefndar frá 2016. Samkvæmt 10. og 11. grein ritreglna Stafsetningarorðabókarinnar (2006:679) átti að rita stóran staf í slíkum nafnheitum ef ritháttur þeirra var ekki lagaður að íslenskri ritvenju en annars lítinn staf, það er Alzheimers-sjúkdómur en hins vegar parkinsonssjúkdómur.
Þessi samræming lítils stafs í læknisfræðilegum heitum á sér fyrirmynd í 14. gr. auglýsingar um íslenska stafsetningu frá 1974 þar sem segir að dýra- og jurtanöfn skuli ávallt rita með lágstaf jafnvel þótt þau séu upphaflega leidd af sérnafni: „a) Dýra- og jurtanöfn, sem samsett eru þannig, að fyrri hlutinn er sérnafn, skal rita með litlum staf, t. d. óðinshani, baldursbrá, jakobsfífill, maríustakkur.“ Þessi regla hefur reynst vel. Sum dýra- og jurtanöfn eru leidd af erlendum samnöfnum en ekki sérnöfnum, til dæmis dachs-hundur (e. Dachshund, af þýska orðinu Dachs ‚greifingi‘) (Jóhannes B. Sigtryggsson 2010) og einfaldar reglan um lítinn upphafsstaf í slíkum flokkum orða ritunina.
Í ritreglunum frá 2016 er kveðið á um að dýra- og jurtanöfn séu eins og áður rituð með lágstaf, til dæmis abyssiníuköttur, maríuerla, spánarsnigill og alaskalúpína og ólafssúra, en reglan einnig látin ná yfir tvo aðra flokka orða, það er fyrrgreind læknisfræðileg orð og matarorð, til dæmis dijon-sinnep, kínakál, vínarsnitsel.
Heimildir
Auglýsing um íslenska stafsetningu nr. 132/1974.
Ágústa Þorbergsdóttir. 2011. Nafnheiti. Hugleiðingar um hverfandi merkingarþátt sérnafna og aðlögun ritháttar þeirra. Díslex. Dísæt lex(ókógraf)ía kennd Þórdísi Úlfarsdóttur fimmtugri 27.4.2011, bls. 15–19. Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen: Reykjavík.
Íslensk málnefnd. 2016. Ritreglur. Auglýsing mennta- og menningarmálaráðuneytis nr. 695/2016 með leiðréttingum. (Sótt 13.5.2020).
Jóhannes B. Sigtryggsson. 2010. Heiti hundategunda. Fáum mönnum er Kári líkur. Nítján kárínur gerðar Kára Kaaber sextugum 18. febrúar 2010, bls. 29–35. Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen: Reykjavík.
Jóhannes B. Sigtryggsson. 2016. Greinargerð um helstu breytingar á ritreglum. Skíma 39:39–40.
Jóhannes B. Sigtryggsson. „Hvernig á að skrifa sjúkdómsheiti á íslensku?“ Vísindavefurinn, 3. júní 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79601.
Jóhannes B. Sigtryggsson. (2020, 3. júní). Hvernig á að skrifa sjúkdómsheiti á íslensku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79601
Jóhannes B. Sigtryggsson. „Hvernig á að skrifa sjúkdómsheiti á íslensku?“ Vísindavefurinn. 3. jún. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79601>.