PCB-efnum er skipt í tvo flokka eftir gerð. Annars vegar eru efni sem líkjast díoxíni og hins vegar önnur PCB-efni. Þau fyrrnefndu eru 12 talsins og eru venjulega flokkuð með díoxíni. Hin hafa ekki eituráhrif í líkingu við díoxín en hafa áhrif engu að síður. Díoxínlík PCB hafa ýmis konar eituráhrif og áhrif á efnaskipti líkamans. Sum eru þekktir krabbameinsvaldar en auk þess eru þekkt áhrif á móðurlíf, áhrif á þroska, áhrif á æxlunarfæri (skert sæðismyndun og vansköpun) og mótstöðuafl gegn sjúkdómum. Eituráhrif efnanna er mismikil en til þess að hægt sé að bera saman eiturvikni þeirra hefur verið skilgreindur alþjóðlegur jafngildisstuðull (e. Toxic Equivalent Factor, I-TEF) sem er hlutfall af eitrunaráhrifum þeirrar afleiðu díoxíns sem er eitruðust og nefnist 2,3,7,8-TCDD, en stuðull hennar er 1. Styrkur hverrar afleiðu margfaldaður með jafngildisstuðli hennar gefur eitrunarjafngildi, Toxic Equivalent, eða TEQ. Heildareitrunaráhrif er síðan summa TEQ-gildanna. Samkvæmt áhættumati vísindanefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um matvæli hefur verið ákveðið að ásættanleg dagleg neysla (e. Tolerable daily intake, TDI) díoxína og díoxínlíkra PCB-efna sé 2 píkógrömm á hvert kg líkamsþunga. Niðurstöður rannsókna á umhverfismengun bendir til að magn PCB fari minnkandi í náttúrunni og að sama skapi hefur magnið í fæðu minnkað. Talið er að helst sé hætta á ferðum hjá neytendum sem borða mikið af fiski frá menguðum hafsvæðum eins og til dæmis Eystrasalti. Umhverfisstofnun hefur einnig talið ástæðu til að benda barnshafandi konum og konum með börn á brjósti á að borða ekki sjávarspendýr (hval, sel) eða stóra ránfiska (túnfisk, sverðfisk). Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað eru þrávirk lífræn efni og hvernig berast þau í dýr? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni? eftir Jón Má Halldórsson
- Hver eru skaðleg áhrif skordýraeitursins DDT? eftir Jón Má Halldórsson
Þetta svar er fengið af vef Matvælastofnunar og birt með góðfúslegu leyfi.