Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er ranghugmynd merkingarleysa? Geta hugmyndir verið réttar eða rangar?

Elmar Geir Unnsteinsson

Upprunaleg spurning var svohljóðandi:
Fyrirbærið hugmynd er augljóslega hvorki það sama og staðhæfing eða fullyrðing, hvað þá heldur tilgáta eða kenning, sem aftur leiðir af sér að hugmynd getur þá hvorki verið "rétt" né "röng" (eða hvað?) sem slík, ólíkt öllum hinum fyrirbærunum enda jú bara hugmynd! Er þá ekki hugtakið "ranghugmynd" hreinlega rangnefni, röng þýðing (á hugtakinu delusion) eða hreinlega merkingarlaust hugtak?

Orðið ‚hugmynd‘ er margrætt í daglegu tali og vísindalegt notagildi þess er takmarkað eða umdeilt. Í daglegu tali geta hugmyndir verið ýmist staðhæfingar eða ímyndir af ólíkum toga. Fólk segist til dæmis hafa fengið hugmynd þegar það leysir gátur eða vandamál. Slíkar hugmyndir hafa inntak sem getur verið satt eða ósatt, rétt eða rangt. Í daglegu tali segir fólk líka að það hafi hugmyndir um ýmis fyrirbæri, hugmynd um bláan lit eða hugmynd um þríhyrning. Við fyrstu sýn er ekki ljóst hvernig slíkar hugmyndir – það er að segja hugtök eða ímyndir – geta verið sannar eða réttar.

Til að svara spurningunni um það hvort til séu ranghugmyndir er best að leita á náðir hugfræðinnar (e. cognitive science). Ein áhrifamikil kenning hugfræðinga er sú að mannshugurinn hafi að geyma ýmsar tegundir viðhorfa (e. attitudes) sem beinast að staðhæfingum (e. propositions). Mannleg hugsun einkennist líka af öðrum hugarferlum, svo sem geðshræringum og skynjunum, en viðhorf eru afar mikilvæg til að útskýra mannlegt atferli. Tökum sem dæmi skoðanir og langanir. Ef mig langar í epli og ég trúi því að það sé epli á borðinu fyrir framan mig, þá mun ég líklega ná í eplið og borða það. Þá er líka betra að skoðun mín sé sönn. Skoðunin er þá viðhorf og inntak skoðunarinnar er sú staðhæfing að það sé epli á borðinu fyrir framan mig.

Er epli á borðinu fyrir framan mig?

Við getum kallað þetta hugarástand ‚viðhæfingu‘ (e. propositional attitude). Viðhæfingar þurfa hvorki að vera meðvitaðar né bundnar náttúrulegu tungumáli. Ég trúi því til dæmis að til sé hærri tala en 24 án þess að hafa hugsað um það áður á meðvitaðan hátt. Náttúruleg tungumál eru einfaldlega mál á borð við íslensku, ensku og kínversku. Setningin ‚Það er epli á borðinu‘ þarf ekki að birtast í huga mínum til að ég trúi því sem hún tjáir.

Viðhæfingar hafa sannkjör (e. truth conditions) og því er mjög auðvelt að útskýra hvernig þær geta verið sannar eða ósannar. Sannkjör eru þau skilyrði sem uppfylla þarf til að inntak sé satt eða ósatt. Skoðun mín um eplið er sönn þá og því aðeins að það sé epli á borðinu fyrir framan mig. Það er því ljóst að hugmyndir sem eru í raun viðhæfingar geta verið ranghugmyndir.

En hvað með þær einingar hugsunarinnar sem eru minni en heil hugsun? Þegar ég hugsa að eplið sé á borðinu hugsa ég líka um eplið. Ég hlýt því að hafa einhvers konar hugtak sem gerir mér kleift að hafa ólík viðhorf um þetta epli. Ég get vonað, óttast, viljað eða munað að eplið sé á borðinu. Þessi viðhorf deila inntaki en líka sama hugtakinu um epli. Hugfræðinga greinir mjög á um eðli hugtaka og ég mun ekki fara út í þá sálma hér.[1]

Við skulum heldur gefa okkur eins lítið og mögulegt er um eðli hugtaka. Ef viðhæfingar hafa sannkjör þá hljóta hugtökin sem birtast í þeim að gegna veigamiklu hlutverki í að ákvarða sannkjörin. Hugtakið um epli verður því í einhverjum skilningi að vísa til eplisins sjálfs, því skoðun mín er sönn ef og aðeins ef eplið er á borðinu. En hvað gerist þá ef hugtakið vísar ekki til eplisins, heldur til ofskynjunar minnar um að það sé epli á borðinu? Eða til peru sem ég held að sé epli? Þetta gæti vissulega gerst. En það er ekki þar með sagt að ég sé haldinn ranghugmynd í þeim skilningi að hugtakið sjálft sé ruglað eða rangt. Ég hef bara þá ósönnu skoðun að það sé epli á borðinu.

Ímyndum okkur að Bogi Ágústsson sé í rauninni ekki til.

Til að finna hugtök sem eru sjálf rugluð eða röng þurfum við að kafa svolítið dýpra. Ímyndum okkur að Bogi Ágústsson sé í rauninni ekki til. Maðurinn sem við köllum ‚Boga‘ er í raun eineggja tvíburar, Bolli og Gissur. Við höfum séð Bolla og Gissur nákvæmlega jafn oft og nákvæmlega jafn mikið, þannig að hvorugur þeirra á meira tilkall en hinn til að hafa orsakað hugsanir eða hugmynd okkar um ‚Boga.‘ Setjum svo að ég trúi því að Bogi eigi rauða skyrtu en í raun eigi Bolli skyrtuna og Gissur ekki. Hvort er skoðun mín sönn eða ósönn? Um hvern er ég að hugsa eða tala þegar ég hugsa eða tala um Boga? Hér er ekki alveg ljóst hvort unnt sé að svara þessum spurningum. Bogi er blekking og því á hann enga rauða skyrtu og Boga-hugtakið vísar ekki til hans. Ef ég kæmist að sannleikanum myndi ég ekki halda áfram hugsa um Boga með sama hætti, ég myndi endurskoða sjálft hugtakið, því ég var haldinn ranghugmynd.

Tökum annars konar dæmi. Gefum okkur að ég gæti ekki greint á milli beykis og álms. Því gæti virst vera lítill eða enginn munur á hugtökum mínum um beyki og álm. Þegar ég sé álm er ég jafn líklegur til að vísa til hans sem ‚beykis‘ og ‚álms.‘ Trjáfræðingur býr yfir fullkomnari hugtökum en ég um þessar trjátegundir og ég færi eftir notkun hans. En það er ekki þar með sagt að hugtök mín séu röng eða rugluð. Ég get vissulega hugsað sannar hugsanir um beyki, til dæmis að beyki sé trjátegund. Ég veit líka alveg að beyki og álmur eru ólíkar trjátegundir, þótt ég geti ekki greint á milli þeirra. Því virðist þetta dæmi ekki vera alveg eins og dæmið um Bolla og Gissur. Munurinn er sá að, í einhverjum skilningi, trúi ég því að Bolli og Gissur séu einn og sami maðurinn, jafnvel þótt ég hafi aldrei notað þessi nöfn um Boga Ágústsson. Ég trúi því hins vegar ekki að beyki og álmur séu sama trjátegundin.[2]

Spurningunni má því svara játandi. Það eru til ranghugmyndir, bæði í þeim skilningi að sumar skoðanir eru ósannar og í þeim skilningi að sum hugtök virðast ekki vísa til neins. Þótt dæmin hér fyrir ofan séu tilbúningur mætti velta því fyrir sér hvort ruglingur af svipuðu tagi eigi sér ekki reglulega stað í vísindum og annars staðar. Sumir myndu halda því fram að í sögu vísindanna megi finna fjöldann allan af slíkum dæmum[3] og aðrir myndu benda á ýmis hugtök sem stundum heyrast í pólitískri orðræðu (‚kynþáttur‘ gæti verið dæmi um það).

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá Concepts. The Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  2. ^ Dæmið kemur frá Hilary Putnam 1973.
  3. ^ Sjá til dæmis grein Hartrys Field um massa-hugtakið.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Elmar Geir Unnsteinsson

lektor í heimspeki við University College Dublin og vísindamaður við Hugvísindasvið HÍ

Útgáfudagur

5.6.2020

Spyrjandi

Örn

Tilvísun

Elmar Geir Unnsteinsson. „Er ranghugmynd merkingarleysa? Geta hugmyndir verið réttar eða rangar?“ Vísindavefurinn, 5. júní 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79363.

Elmar Geir Unnsteinsson. (2020, 5. júní). Er ranghugmynd merkingarleysa? Geta hugmyndir verið réttar eða rangar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79363

Elmar Geir Unnsteinsson. „Er ranghugmynd merkingarleysa? Geta hugmyndir verið réttar eða rangar?“ Vísindavefurinn. 5. jún. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79363>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er ranghugmynd merkingarleysa? Geta hugmyndir verið réttar eða rangar?
Upprunaleg spurning var svohljóðandi:

Fyrirbærið hugmynd er augljóslega hvorki það sama og staðhæfing eða fullyrðing, hvað þá heldur tilgáta eða kenning, sem aftur leiðir af sér að hugmynd getur þá hvorki verið "rétt" né "röng" (eða hvað?) sem slík, ólíkt öllum hinum fyrirbærunum enda jú bara hugmynd! Er þá ekki hugtakið "ranghugmynd" hreinlega rangnefni, röng þýðing (á hugtakinu delusion) eða hreinlega merkingarlaust hugtak?

Orðið ‚hugmynd‘ er margrætt í daglegu tali og vísindalegt notagildi þess er takmarkað eða umdeilt. Í daglegu tali geta hugmyndir verið ýmist staðhæfingar eða ímyndir af ólíkum toga. Fólk segist til dæmis hafa fengið hugmynd þegar það leysir gátur eða vandamál. Slíkar hugmyndir hafa inntak sem getur verið satt eða ósatt, rétt eða rangt. Í daglegu tali segir fólk líka að það hafi hugmyndir um ýmis fyrirbæri, hugmynd um bláan lit eða hugmynd um þríhyrning. Við fyrstu sýn er ekki ljóst hvernig slíkar hugmyndir – það er að segja hugtök eða ímyndir – geta verið sannar eða réttar.

Til að svara spurningunni um það hvort til séu ranghugmyndir er best að leita á náðir hugfræðinnar (e. cognitive science). Ein áhrifamikil kenning hugfræðinga er sú að mannshugurinn hafi að geyma ýmsar tegundir viðhorfa (e. attitudes) sem beinast að staðhæfingum (e. propositions). Mannleg hugsun einkennist líka af öðrum hugarferlum, svo sem geðshræringum og skynjunum, en viðhorf eru afar mikilvæg til að útskýra mannlegt atferli. Tökum sem dæmi skoðanir og langanir. Ef mig langar í epli og ég trúi því að það sé epli á borðinu fyrir framan mig, þá mun ég líklega ná í eplið og borða það. Þá er líka betra að skoðun mín sé sönn. Skoðunin er þá viðhorf og inntak skoðunarinnar er sú staðhæfing að það sé epli á borðinu fyrir framan mig.

Er epli á borðinu fyrir framan mig?

Við getum kallað þetta hugarástand ‚viðhæfingu‘ (e. propositional attitude). Viðhæfingar þurfa hvorki að vera meðvitaðar né bundnar náttúrulegu tungumáli. Ég trúi því til dæmis að til sé hærri tala en 24 án þess að hafa hugsað um það áður á meðvitaðan hátt. Náttúruleg tungumál eru einfaldlega mál á borð við íslensku, ensku og kínversku. Setningin ‚Það er epli á borðinu‘ þarf ekki að birtast í huga mínum til að ég trúi því sem hún tjáir.

Viðhæfingar hafa sannkjör (e. truth conditions) og því er mjög auðvelt að útskýra hvernig þær geta verið sannar eða ósannar. Sannkjör eru þau skilyrði sem uppfylla þarf til að inntak sé satt eða ósatt. Skoðun mín um eplið er sönn þá og því aðeins að það sé epli á borðinu fyrir framan mig. Það er því ljóst að hugmyndir sem eru í raun viðhæfingar geta verið ranghugmyndir.

En hvað með þær einingar hugsunarinnar sem eru minni en heil hugsun? Þegar ég hugsa að eplið sé á borðinu hugsa ég líka um eplið. Ég hlýt því að hafa einhvers konar hugtak sem gerir mér kleift að hafa ólík viðhorf um þetta epli. Ég get vonað, óttast, viljað eða munað að eplið sé á borðinu. Þessi viðhorf deila inntaki en líka sama hugtakinu um epli. Hugfræðinga greinir mjög á um eðli hugtaka og ég mun ekki fara út í þá sálma hér.[1]

Við skulum heldur gefa okkur eins lítið og mögulegt er um eðli hugtaka. Ef viðhæfingar hafa sannkjör þá hljóta hugtökin sem birtast í þeim að gegna veigamiklu hlutverki í að ákvarða sannkjörin. Hugtakið um epli verður því í einhverjum skilningi að vísa til eplisins sjálfs, því skoðun mín er sönn ef og aðeins ef eplið er á borðinu. En hvað gerist þá ef hugtakið vísar ekki til eplisins, heldur til ofskynjunar minnar um að það sé epli á borðinu? Eða til peru sem ég held að sé epli? Þetta gæti vissulega gerst. En það er ekki þar með sagt að ég sé haldinn ranghugmynd í þeim skilningi að hugtakið sjálft sé ruglað eða rangt. Ég hef bara þá ósönnu skoðun að það sé epli á borðinu.

Ímyndum okkur að Bogi Ágústsson sé í rauninni ekki til.

Til að finna hugtök sem eru sjálf rugluð eða röng þurfum við að kafa svolítið dýpra. Ímyndum okkur að Bogi Ágústsson sé í rauninni ekki til. Maðurinn sem við köllum ‚Boga‘ er í raun eineggja tvíburar, Bolli og Gissur. Við höfum séð Bolla og Gissur nákvæmlega jafn oft og nákvæmlega jafn mikið, þannig að hvorugur þeirra á meira tilkall en hinn til að hafa orsakað hugsanir eða hugmynd okkar um ‚Boga.‘ Setjum svo að ég trúi því að Bogi eigi rauða skyrtu en í raun eigi Bolli skyrtuna og Gissur ekki. Hvort er skoðun mín sönn eða ósönn? Um hvern er ég að hugsa eða tala þegar ég hugsa eða tala um Boga? Hér er ekki alveg ljóst hvort unnt sé að svara þessum spurningum. Bogi er blekking og því á hann enga rauða skyrtu og Boga-hugtakið vísar ekki til hans. Ef ég kæmist að sannleikanum myndi ég ekki halda áfram hugsa um Boga með sama hætti, ég myndi endurskoða sjálft hugtakið, því ég var haldinn ranghugmynd.

Tökum annars konar dæmi. Gefum okkur að ég gæti ekki greint á milli beykis og álms. Því gæti virst vera lítill eða enginn munur á hugtökum mínum um beyki og álm. Þegar ég sé álm er ég jafn líklegur til að vísa til hans sem ‚beykis‘ og ‚álms.‘ Trjáfræðingur býr yfir fullkomnari hugtökum en ég um þessar trjátegundir og ég færi eftir notkun hans. En það er ekki þar með sagt að hugtök mín séu röng eða rugluð. Ég get vissulega hugsað sannar hugsanir um beyki, til dæmis að beyki sé trjátegund. Ég veit líka alveg að beyki og álmur eru ólíkar trjátegundir, þótt ég geti ekki greint á milli þeirra. Því virðist þetta dæmi ekki vera alveg eins og dæmið um Bolla og Gissur. Munurinn er sá að, í einhverjum skilningi, trúi ég því að Bolli og Gissur séu einn og sami maðurinn, jafnvel þótt ég hafi aldrei notað þessi nöfn um Boga Ágústsson. Ég trúi því hins vegar ekki að beyki og álmur séu sama trjátegundin.[2]

Spurningunni má því svara játandi. Það eru til ranghugmyndir, bæði í þeim skilningi að sumar skoðanir eru ósannar og í þeim skilningi að sum hugtök virðast ekki vísa til neins. Þótt dæmin hér fyrir ofan séu tilbúningur mætti velta því fyrir sér hvort ruglingur af svipuðu tagi eigi sér ekki reglulega stað í vísindum og annars staðar. Sumir myndu halda því fram að í sögu vísindanna megi finna fjöldann allan af slíkum dæmum[3] og aðrir myndu benda á ýmis hugtök sem stundum heyrast í pólitískri orðræðu (‚kynþáttur‘ gæti verið dæmi um það).

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá Concepts. The Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  2. ^ Dæmið kemur frá Hilary Putnam 1973.
  3. ^ Sjá til dæmis grein Hartrys Field um massa-hugtakið.

Heimildir:

Myndir:...