Eldur af völdum efnahvarfa við vatn
Nokkur efni eru þekkt fyrir að valda eldi ef þau komast í tæri við vatn. Eitt þekktasta dæmið er natrínmálmur. Ef nógu stórt stykki af natrínmálmi er sett út í vatn getur kviknað eldur. Það er þó ekki svo að vatnið sjálft brenni heldur hvarfast málmurinn við vatnið og myndar vetnisgas eins og sést á eftirfarandi efnajöfnu: $$ 2 Na_{(s)} + 2 H_{2}O_{(g)} \rightarrow 2 NaOH_{(s)} + H_{2 (g)} $$ Efnahvarfið er afar útvermið, það er að segja það losnar mikill hiti við hvarfið, sem verður til þess að það kviknar í vetninu og hægt er að greina dauft grænblátt ljós; loginn er þó stundum gulur ef natrín-jónir úr vatnslausninni lenda í loganum. Önnur efni sem geta valdið eldi þegar þeim er blandað við vatn eru til dæmis kalínmálmur (e. potassium metal), litín-álhýdríð (e. lithium aluminum hydride), kalsín-hýdríð, kalín-hýdríð og mörg svonefnd Grignard-efnasambönd (e. Grignard reagents).Safnlinsur úr vatni
Glær, kúpt ílát sem eru fyllt með vatni geta virkað sem safnlinsur. Þegar sólarljós skín í gegnum þessi ílát safnast ljósið saman í brennipunkti og getur þá kviknað í hlutum að því tilskyldu að þeir séu í brennipunktinum. Plastflaska (helst án áferðar), ljósapera (glópera) og plastfilma sem er mótuð í kúlu eru dæmi um ílát sem hægt er að nota til verksins. Á þennan hátt getur vatn stuðlað að því að vatnsfylltu ílátin virki eins og stækkunargler. Jafnvel glær, kúptur ísmoli getur virkað á sama hátt.Vatnsgufa
Við höfum margoft séð vatnsgufu og vitum að við getum brennt okkur á henni. Venjuleg vatnsgufa er hins vegar vanalega ekki hættuleg að öðru leyti, hún er til dæmis ekki nægilega heit til að kveikja í hlutum í umhverfi okkar. En það er hægt að hita vatnsgufu þannig að hún verði töluvert heitari en 100°C. Ef vatn er látið sjóða í flösku sem er tengd við rör (til dæmis koparrör eða glerrör) og þetta rör er hitað með gasbrennara (Bunsen-brennara) nær vatnsgufan um 200°C hita; þetta hitastig er nægilegt til að það kvikni á eldspýtu eða pappír sem er haldið við op glerrörsins. Þetta má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan.- The Action Lab. Is it Possible To Light a Match With Really Hot Water?. Sótt 28.04.20 af youtube.com
- chemguide.Reactions of the Group 1 Elements with Water. Sótt 28.04.20 af chemguide.co.uk
- Environmental Health & Safety for the Energy Technologies Area. Common Water Reactive Chemicals. Sótt 28.04.20 af eta-safety.lbl.gov
- Instructables Online. 5 Ways to start a Fire using Water. Sótt 28.04.20 af instructables.com
- M.I.T. Common Pyrophoric and Water-Reactive Chemicals at MIT. Sótt 28.04.20 af labcoats.mit.edu
- Rich M. Unusual way to actually start a Fire with Water. Sótt 28.04.20 af offthegridnews.com
- Steven Sprangler. Superheated Steam. Sótt 28.04.20 af stevenspranglerscience.com
- Web Elements. Sodium: reactions of elements. Sótt 28.04.20 af webelements.com