Er gott eða vont að nýta notaðan kaffikorg í garðinn/ræktun? Ef það er gott í hvaða tilfellum? Það er mikið af misvísandi upplýsingum á vefnum en margir vilja endurnýta og vera vistvænir.Samfara aukinni umhverfisvitund hefur áhugi á endurvinnslu af öllu tagi færst í aukana og ekki síst á jarðgerð á því sem fellur til úr eldhúsinu. Fjöldi garðeigenda hefur komið sér upp safnhaug í þeim tilgangi að jarðgera matarúrgang og þar með kaffi. Fyrir tveimur eða þremur áratugum tóku kaffihús víða um heim upp á því að gefa viðskiptavinum sínum og garðeigendum kaffikorg sem lífrænan áburð. Með þessu átti að slá tvær flugur í einu höggi. Kaffihúsin losnuðu við kaffikorginn á ódýran hátt og garðeigendur fengu ókeypis lífrænan áburð.

Það er vel þekkt að nota kaffikorg sem áburð fyrir plöntur en ekki óumdeilt. Ekkert mælir gegn því að nota kaffikorg til jarðgerðar sé það gert í hófi og þess gætt að blanda hann vel með öðrum lífrænum efnum á meðan niðurbrotið á sér stað. Einnig mælir ekkert gegn því að strá kaffikorgi í litlu magni yfir beð hjá plöntum sem kjósa súran jarðveg og raka hann niður í jarðveginn.