Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar fyrsta smitið af COVID-19-sjúkdómnum greindist á Íslandi föstudaginn 28. febrúar höfðu almannavarnir stjórnvalda skipulagt samhæfða aðgerðaráætlun til að hægja á útbreiðslu faraldursins hérlendis. Fyrst um sinn fólu aðgerðirnar í sér að einangra smitaða einstaklinga og setja þá sem sýndu einkenni eða höfðu verið á áhættusvæðum erlendis í 14 daga sóttkví. Tveimur vikum síðar, 13. mars, var sett á samkomubann og þann 24. mars var samkomubannið hert verulega; ekki máttu fleiri en 20 manns safnast saman og líkamsræktar- og sundstöðum var lokað, auk ýmissa annarra takmarkana. Enn fremur fylgdu leiðbeiningar og tilmæli til almennings ekki aðeins um handþvott heldur var almenningur beðinn um að takmarka samskipti og halda tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga sem ekki búa saman á heimili (sjá covid.is).
Þessir tímar vekja upp mikilvægar spurningar um hegðun almennings á tímum óvissu og hættu. Ljóst var frá upphafi að samkomubannið og leiðbeinandi tilmælin yrðu íþyngjandi fyrir einstaklinga, fyrirtæki og atvinnulíf. Engu að síður fólu aðgerðirnar í sér þá forsendu að unnt væri að fá mikinn meirihluta almennings til þess að breyta daglegu lífi sínu í einu vetfangi á grundvelli vísindalegra væntinga um árangur opinberra aðgerða í fordæmalausu óvissuástandi.
Afar mikilvægt er að kortleggja hegðun og afstöðu almennings með tilliti til þessara aðgerða, á meðan faraldurinn hefur gengur yfir. Sú vitneskja verður ekki síst verðmæt eftir að faraldurinn hefur gengið yfir og vísindafólk fer í þá vinnu að meta árangur aðgerðanna. Í þessari grein er gerð grein fyrir könnun á þátttöku og afstöðu Íslendinga til aðgerða almannavarna, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur unnið að í samstarfi við fræðafólk á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Könnunin er send til 400 einstaklinga á hverjum degi (valdir með slembivali úr netpanel Félagsvísindastofnunar, sjá Viðauka) og þannig er hægt að greina hvernig afstaða Íslendinga breytist yfir tíma. Þegar þessi grein er skrifuð (mánudagur 20. apríl) virðist fyrsta bylgja COVID-19 vera í rénum (sjá covid.is - Tölulegar upplýsingar). Hápunktur í aukningu smita var í seinustu viku marsmánaðar en hápunktur virkra smita var 5. apríl. Hér eru kynntar niðurstöður um þróun í þátttöku í og afstöðu almennings til sóttvarnaraðgerðanna dagana 1.-19. apríl.
Væntingar um árangur sóttvarnaraðgerðanna
Til þess að hámarka trúverðugleika aðgerða og efla áhrif þeirra mættu þeir sérfræðingar sem að aðgerðum stóðu á daglega blaðamannafundi og sögðu frá stöðunni, fóru yfir þær forsendur sem þeir störfuðu eftir og sátu fyrir svörum fjölmiðlafólks sem oft spurði gagnrýnna spurninga. Mynd 1 bendir til þess að aðgerðirnar hafi fengið afar mikinn trúverðugleika, jafnvel á meðan faraldurinn var ennþá í verulegum vexti. Allt frá 1. apríl hefur mikill meirihluti svarenda, yfir 95 prósent, haft þá trú á að sóttvarnaraðgerðir myndu „mjög líklega“ eða „frekar líklega“ skila þeim árangri að hægja verulega á faraldrinum. Eins og við mætti búast eykst fjöldi þeirra sem segja það „mjög líklegt“ eftir að faraldurinn byrjar að réna undir lok tímabilsins, en þá skoðun hafa 70% svaranda í nýjustu mælingunni frá 19. apríl.
Mynd 1. Hve líklegt eða ólíklegt telur þú vera að núverandi sóttvarnaraðgerðir (þ.e. smitrakning, sóttkví, einangrun og samkomubann) dugi til þess að hægja verulega á útbreiðslu COVID-19-smita á Íslandi?
Þátttaka í sóttvarnaraðgerðunum
Það að fólk hafi trú á aðgerðunum tengist óneitanlega því hvort að fólk álíti það mikilvægt að fylgja tilmælunum og upplifun þess á hvort aðrir geri slíkt hið sama. Niðurstöður á mynd 2 benda sterklega til þess að mikill meirihluti almennings hafi tekið tilmæli almannavarna alvarlega, en tæplega 90 prósent svarenda hafa fylgt þessum tilmælum að frekar miklu eða öllu leyti allt tímabilið sem skoðað er.
Mynd 2. Að hve miklu eða litlu leyti fylgir þú sjálf(ur) tilmælum Embættis landlæknis og almannavarna ríkislögreglustjóra?
Upplifun á þátttöku annarra í sóttvarnaraðgerðunum
Ítrekað hefur sannast í rannsóknum í félagsvísindum að einstaklingar eru jafnan miklu líklegri til þess að taka þátt í atferli eða starfsemi þegar þeir telja að þátttaka annarra sé útbreidd. Þegar einstaklingar telja marga aðra vera að taka þátt verða þeir líklegri til þess að líta svo á að þátttakan sé ekki aðeins sjálfsögð og eðlileg heldur siðferðilega rétt. Niðurstöður á myndum 3 og 4 eru eftirtektarverðar í þessu tilliti. Mynd 3 sýnir að milli 71 og 85 prósent svarenda hafi þá upplifun að þeir aðilar sem þeir eru í mestum samskiptum við fylgi tilmælum almannavarna að mjög miklu eða öllu leyti. En mikið dregur úr þessu hlutfalli þegar svarendur eru spurðir um hegðun allra annarra í samfélaginu; en einungis á milli 34 og 47 prósent svarendanna töldu að Íslendingar almennt væru að fara eftir tilmælunum að miklu eða öllu leyti.
Mynd 3. Að hve miklu eða litlu leyti telur þú að þeir sem þú ert vön/vanur að vera í hvað mestum samskiptum við fylgi tilmælum Embættis landlæknis og almannavarna ríkislögreglustjóra?
Mynd 4. Að hve miklu eða litlu leyti telur þú að Íslendingar almennt fylgi tilmælum Embættis landlæknis og almannavarna ríkislögreglustjóra?
Lokaorð
Þær niðurstöður sem hér er fjallað um benda til þess að mikill meirihluti almennings hafi fylgt tilmælum Almannavarna strax í upphafi. Trú almennings á aðgerðirnar og að þær myndu skila árangri var sömuleiðis mjög sterk, jafnvel á meðan faraldurinn var í fullum vexti. Þetta gerðist jafnvel þótt sektir og lögregluafskipti hafi verið sjaldgæf og að mun meiri áhersla hafi verið á að höfða til borgaralegrar skyldu en beitingu viðurlaga. Samhliða opinni upplýsingagjöf hefur verið lögð áhersla á ávinning samfélagsins af aðgerðunum, frekar en á ávinning einstaklinga. Slagorð aðgerðanna, „við erum öll Almannavarnir“ er dæmi um hvernig send hafa verið skilaboð um að yfirvöld og almenningur séu á sama báti. Útbreidd þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum er líkleg til að hafa átt veigamikinn þátt í hægum vexti faraldursins.
Viðauki — Aðferðafræði könnunar
Aðferðafræði og svörun
Könnunin var send í áföngum á allan netpanel Félagsvísindastofnunar, tæplega 10.000 manns. Til þess að hægt væri að fylgjast með breytingum á hegðun og viðhorfum svarenda var könnunin send daglega á nýtt úrtak. Fyrsta daginn var tekið 1000 manna úrtak til að fá nægjanlega mörg svör fyrstu dagana. Næstu sjö daga á eftir var tekið 500 manna úrtak daglega og eftir það 400 manna úrtak hvern dag. Ástæður þess að úrtaksstærðin var minnkuð var að nægjanlega mörg svör bárust daglega auk þess sem takmarkaður fjöldi meðlima er í netpanelnum. Með því að minnka úrtakið er hægt mæla viðhorf og hegðun í um það bil þrjár vikur áður könnunin er send aftur á þá sem svöruðu könnuninni fyrstu dagana. Þess skal þó getið að þótt sömu aðilar svari aftur þá dregur það ekki úr gildi niðurstaðnanna því könnuninni er ætlað að meta hvernig afstaða breytist eftir því sem faraldrinum vindur fram.
Á hverjum degi bárust á bilinu 150 til 220 svör, en fæst voru þau 137 og flest 275. Vegna þess að svarfjöldi er á þessu bili má búast við nokkrum sveiflum milli daga og því skal varast að oftúlka breytingar milli stakra daga því óvissan er nokkur. Þetta á sérstaklega við þegar verið er að skoða afmarkaða bakgrunnshópa. Ef ákveðin stefnubreyting verður í afstöðu þjóðarinnar má hins vegar búast við að sjá gögnin stefna í þá átt.
Vegna þess að panelmeðlimir geta svarað í meira en 2 vikur eftir að könnun var send til þeirra er snúið að reikna þátttökuhlutfall. Niðurstöður úr fyrstu þremur úrtökunum gefa hins vegar til kynna að þátttökuhlutfall sé um og yfir 50%. Gögnin eru ekki vigtuð en vitað er að svarhlutfall er alla jafna lægra meðal yngra fólks. Þá er svarhlutfall hærra meðal fólks sem hefur lokið háskólagráðu samanborið við þá sem ekki hafa lokið slíkri gráðu.
Nánar um netpanel Félagsvísindastofnunar
Netpanell Félagsvísindastofnunar samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu sem hefur samþykkt að taka þátt í netkönnunum á vegum stofnunarinnar. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Söfnun í netpanel á sér stað jafnt og þétt og fylgst er vel með samsetningu hans. Meðal annars er þess gætt að dreifing kyns, aldurs, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem hún er meðal allra landsmanna, 18 ára og eldri. Með því að tryggja gæði netpanelsins með framangreindum hætti er möguleiki á að alhæfa um niðurstöður rannsókna sem byggjast á svörum úr honum.
Ari Klængur Jónsson, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Jón Gunnar Bernburg, Magnús Þór Torfason, Sigrún Ólafsdóttir og Ævar Þórólfsson. „Þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum vegna COVID-19-faraldursins í apríl 2020.“ Vísindavefurinn, 22. apríl 2020, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79253.
Ari Klængur Jónsson, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Jón Gunnar Bernburg, Magnús Þór Torfason, Sigrún Ólafsdóttir og Ævar Þórólfsson. (2020, 22. apríl). Þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum vegna COVID-19-faraldursins í apríl 2020. Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79253
Ari Klængur Jónsson, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Jón Gunnar Bernburg, Magnús Þór Torfason, Sigrún Ólafsdóttir og Ævar Þórólfsson. „Þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum vegna COVID-19-faraldursins í apríl 2020.“ Vísindavefurinn. 22. apr. 2020. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79253>.