Oft getur maður fundið á lyktinni að kaffið er orðið of kalt til að drekka. Af hverju breytist lyktin af kaffi þegar það kólnar?Við finnum lykt þegar nógu margar sameindir á gasformi berast inn í nasir okkar og bindast þar viðtökum sem senda boð til heilans. Ef þetta er í fyrsta skiptið sem við nemum þessa lykt mun heilinn reyna að geyma minningu um hana. Ef við höfum fundið lyktina áður er mögulegt að heilinn geti kallað fram minningar um hvar og hvenær við fundum lyktina eða um hvaða lykt er að ræða. Því fleiri sameindir af sama efninu sem viðtakarnir nema, þeim mun sterkari finnst okkur lyktin vera. Ef við finnum ekki lykt af einhverju efni eru mögulega allt of fáar sameindir af efninu í loftinu eða viðtakarnir í nösunum þekkja ekki sameindirnar. Við getum fundið lykt af ýmsu í kringum okkur, ekki bara vökvum og lofttegundum heldur líka hlutum. Ástæðan fyrir því að við finnum lykt er alltaf sú sama: sameindir efnisins fara út í loftið og berast inn í nasirnar. Upplifun á bragði og lykt af mat og drykk er oft samspili af bragð- og lyktarskyninu. Prófaðu til dæmis að drekka kaffi og halda fyrir nefið á meðan, upplifunin verður örugglega allt önnur en þegar ekki er haldið fyrir nefið.
- How Temperature Can Impact Your Experience of Coffee - Perfect Daily Grind. (Sótt 24.11.2021).
- Needpix.com. (Sótt 24.11.2021).