Hvers vegna eru airsoft-byssur (loftbyssur) bannaðar á Íslandi en leyfðar í öðrum löndum í Evrópu? Væri ekki hægt að vera með airsoft-íþróttafélag?Svonefndar airsoft-byssur eru í sumum löndum notaðar í „skotvopnaleikjum“ sem svipar til litboltaleikja (e. paintball). Þessar byssur eru í raun ekki bannaðar hér á landi en þær teljast til skotvopna í vopnalögum og því þarf skotvopnaleyfi til að eiga þær og nota. Litboltaleikur (e. paintball) voru lögleiddir samkvæmt sérstakri reglugerð hér á landi og keppendur þurfa því ekki skotvopnaleyfi til að taka þátt. Sá sem er í forsvari fyrir fyrirtæki eða félag sem sér um rekstur liboltaleikja þarf hins vegar skotvopnaleyfi eins og fram kemur í svari Lenu Mjallar Markúsdóttur við spurningunni Hvernig eru lögin á Íslandi í sambandi við litmerkibyssur og hvernig eru þau á Norðurlöndunum og hjá Evrópusambandinu? Spyrjandi spyr sérstaklega um það hvort hægt væri að stofna airsoft-íþróttafélag hér á landi. Réttur til að stofna félög er varinn af sérstökum ákvæðum í stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu en félögin verða þó að starfa í löglegum tilgangi. Starfsemi airsoft-íþróttafélags yrði því fljótt stöðvuð ef þar væru einstaklingar án skotvopnaleyfis með airsoft-byssur. Hins vegar væri hægt að stofna félag áhugamanna um airsoft sem gæti hvatt dómsmálaráðherra að gera sambærilega undanþágu og á við um litboltaleiki. Höfundur færir Nökkva Nils Bernhardssyni sérstakar þakkir fyrir faglegar ráðleggingar. Heimildir og mynd:
- Alþingi. Frumvarp til vopnalaga. Sótt 08.05.20 af althingi.is
- Dómsmálaráðuneytið. Reglur um litmerkibyssur. Sótt 08.05.20 af stjornarradid.is
- Shakirov. Airsoft. Sótt 08.05.20 af flickr.com og birt undir CC-BY SA 2.0 leyfinu
- Wikipedia frjálsa alfræðiritið. Legal Issues in Airsoft. Sótt 08.05.20 af wikipedia.org