Hvað þýðir orðið vífilengjur og hvaðan kemur það? Veit hvenær það er notað en hef áhuga á að vita hitt.Orðið vífilengjur (kvk.ft.) merkir ‘undanbrögð, fyrirsláttur’ og þekkist í málinu frá 16. öld. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr biblíuþýðingu Guðbrands Þorlákssonar biskups sem kom út 1584. Þar stendur í Síraksbók:
ef hann hefur i Borgun geingit / og hefur Viuileingiur i framme.Uppruni orðsins er umdeildur. Danski fræðimaðurinn Christian Westergaard-Nielsen, sem skrifaði um erlend tökuorð í íslensku, gat sér þess til að orðið væri komið úr hollensku weveling, wevelijn, eða lágþýsku weveline ‘þverband eða stig í skipsvanti’ en með vantur er átt við siglustög.