Af hverju köllum við fólk frá Finnlandi „Finna“ en ekki „Finnlendingar“ og fólk frá Kína „Kínverja“ en ekki „Kínar“? Hvað ræður því hvernig endingin á þjóðerni hljómar?
Heiti á íbúum annarra landa eru sérstakur geiri í íslenska orðaforðanum sem hefur þurft sinn tíma til að mótast og er reyndar sífellt í deiglunni. Stjórnmálaþróun veldur því að endrum og sinnum verða til nýjar þjóðir í pólitískum skilningi. Fyrir tæpum áratug var stofnað ríkið Suður-Súdan og þar með eru Suður-Súdanar komnir fram sem samstæður íbúahópur. Tvö ár eru síðan konungur Svasílands ákvað að nafni landsins skyldi breytt og er það nú (með íslenskri stafsetningu) Esvatíní. Þá eru íbúarnir orðnir Esvatínímenn en voru áður Svaslendingar. Ríkja- og íbúaheiti eru sem sé ekki alveg lokað mengi í orðaforðanum. Þjóðarhugtakið er vandmeðfarið í þessu sambandi enda telja íbúar ríkja sig oftar en ekki til mismunandi þjóða og þjóðarbrota. Þegar við fylgjumst með fótboltaliðum Spánverja og Rússa er allt eins líklegt að einhverjir leikmenn séu Baskar eða Tatarar. Hér á eftir er notað orðið íbúaheiti fremur en þjóðaheiti enda er hér vísað til íbúa í tilteknum ríkjum.
Ekki er á fornum arfi að byggja nema að takmörkuðu leyti að því er varðar sjálf ríkjaheitin en við myndun íbúaheitanna er að miklu leyti fylgt mynstrum sem þekkt eru úr eldra máli. Venjan er sú að byggt sé á sama stofni og er í landsheitinu, með orðliðum og viðskeytum; -verjar (Spánverjar), -menn (Úkraínumenn), -ingar (Hollendingar, Filippseyingar), eða þannig að beygingarendingu -ar/-ir er bætt við orðstofn sem finnst í landsheitinu (Írakar, Rússar, Tyrkir).
Svonefnd lærð orðmyndun kemur hér talsvert við sögu og hefur málhreinsun sett mark sitt á íbúaheitin eins og ýmislegt annað í nútímaíslensku. Athuganir á frásögnum blaða og tímarita frá 19. öld og áfram veita oft fróðlega innsýn í það hvernig heitin festast smám saman í staðlaðri mynd. Íbúaheiti geta verið svolítið breytileg fyrst í stað eftir að tiltekið land og íbúar þess komast á dagskrá hér landi en síðan festast gjarna ákveðin orð í sessi með tímanum. Í heimildum frá lokum 18. aldar og fram á 19. öld má finna heiti sem sjaldan eða aldrei sjást lengur, t.d. Kínesar, Kínamenn; Portúgísar; Pólakkar. Enda þótt eitt heiti (Kínverji; Portúgali; Pólverji) verði oftast ofan á er þó enn í dag talsvert um það í dag að tvær eða fleiri myndir lifi hlið við hlið (Eistar/Eistlendingar; Mexíkanar/Mexíkóar/Mexíkómenn).
Árna Böðvarssonar orðabókarritstjóri sem var málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins á árunum 1984–1992 veitti starfsmönnum stofnunarinnar og öllum almenningi mikla leiðsögn um landfræðileg heiti og íbúaheiti. Þar var t.a.m. lagst gegn tökuviðskeytinu –an– (Kóreanar) í íbúaheitum (sem og gegn –ansk– (kóreanskur) í samsvarandi lýsingarorðum, sjá Veturliða G. Óskarsson 2006).
Í Íslensku málfari (1992) segir Árni Böðvarsson í orðaskrá: „–verji, –verskur metin góð íslenska, en „–ani, –anskur“ vond“ (1992: 146) og í kafla sem ber yfirskriftina Þjóðaheiti og lýsingarorð segir hann (1992: 317):
1) Íbúaheiti og samsvarandi lýsingarorð fara venjulega eftir mynd og beygingu staðarheitisins. Sum þeirra hafa tíðkast frá fornu fari og taka sérstakri beygingu, svo sem Dani, Grikki, Tyrki og nokkur fleiri með fleirtöluendinguna -ir (Danir, Grikkir, Tyrkir). Önnur þjóðaheiti fá fleirtöluendinguna -ar og beygjast því eins og hani, hanar: Albani, Belgi, Búlgari, Frakki, Ísraeli, Líbani, Pakistani, Portúgali, Rúmeni (fleirtala Albanar, Belgar, Búlgarar, Frakkar, Ísraelar, Líbanar, Pakistanar, Portúgalar, Rúmenar). Fleirtöluendingin -ir hefur verið að sækja á undanfarin ár en sú málbreyting er ekki til bóta. 2) Stundum er örðugt að finna íbúaheiti og lýsingarorð við hæfi þótt komin sé íslensk mynd á staðarnafni. Grannmál okkar leysa þetta oft með viðskeytinu –ani, ft. –anar („Afríkani, Ameríkani, Kúbani, Mexíkani“) um íbúana og nota þá lýsingarorðsviðskeytið –anskur dregið af staðarheitinu („afríkanskur, ameríkanskur, kóreanskur, kúbanskur, perúanskur“). Þessi viðskeyti hafa ekki þótt boðleg í vandaðri íslensku. 3) Endingarnar –verji, –verjar, –ingur eru oft góðar til að mynda íbúaheiti. Lýsingarorðsendingin –verskur samsvarar þá nafnorði á –verji. 4) Allmörg lönd draga nafn af heiti íbúanna: Bretland, Frakkland, Ungverjaland. Stundum hafa slík landaheiti þó breyst þannig að þessi uppruni er dulinn í nútímamáli, til dæmis England („land Engla“, sbr. Engil-Saxar), svo að nýtt íbúaheiti er dregið af landsheitinu (Englendingur). 5) Borgarbúar eru oft nefndir –búi, –búar (Óslóarbúi) en íbúar heilla landa síður; sumum þykir það niðrandi. Þá kjósa menn endinguna –maður eða –verji. Af borgarheitum sem enda á -borg eru oft dregin íbúaheiti með -ari, -arar (Gautaborgari, Hamborgari).
Árið 1974 kom út orðaskrá með íslenskum, dönskum og færeyskum „ríkjaheitum og þjóðernisorðum“. Íslensk málnefnd, Dönsk málnefnd og Fróðskaparsetrið í Færeyjum lögðu til efnið í skrána. Þessi skrá er forvitnileg þótt hún sé löngu úrelt. Íslensku íbúaheitin höfðu þarna mjög oft endingarnar –menn (35) (Austurríkismenn, Líberíumenn, Mexíkómenn, Perúmenn o.s.frv.) og –búar (39) (Andorrabúar, Bahreinbúar, Gambíubúar, Ghanabúar, Fílabeinsstrandarbúar, Panamabúar o.s.frv.). Endingin–verjar var talsvert fátíðari (6): Indverjar, Kínverjar, Pólverjar, Spánverjar, Ungverjar, Þjóðverjar. Svolítið var um síðari liðinn –lendingar ef ríkisheitið endaði á –land (Swazilendingar, Thailendingar) og jafnvel þótt svo væri ekki (Svisslendingar) en endingin –land er raunar alls ekki endilega ávísun á íbúaheiti með –lendingar (sbr. Bretar, Pólverjar). Víða í skránni 1974 var farin sú leið að setja beygingarendinguna –i aftan á stofn nafnsins eða hluta hans: Indónesi, Kamerúni.
Árið 1994 kom út á vegum málnefnda Norðurlanda ný orðaskrá með ríkjaheitum, íbúaheitum ríkjanna og samsvarandi lýsingarorðum. Íslenska efnið er talsvert breytt frá fyrri gerð. Í íslenska hlutanum sneiðir Íslensk málnefnd nú hjá því að nota liðinn –búar og er það í samræmi við leiðbeiningar Árna Böðvarssonar sem getið var um hér á undan. Í riti Árna, Orðalykli (1987), er að finna firnamörg heiti á íbúum ríkja. Árni notar þar mjög oft síðari liðinn –menn (Ganamenn, Hondúrasmenn, Panamamenn o.s.frv.) og fer einnig aðrar leiðir. En –búar hefur hann sem sagt aðeins um íbúa borga og bæja (Ammassalikbúar, Bernarbúar, Havanabúar o.s.frv.).
Íslensk málnefnd fór árið 1994 sömu leið og Árni Böðvarsson í Orðalykli að því leyti að annars vegar voru erlendir orðstofnar lagaðir enn frekar að hefðbundnu sambandi bókstafa og framburðar í íslensku (Gana í stað Ghana, Paragvæ í stað Paraguay o.fl.) og hins vegar var nú algerlega sneitt hjá endingunni –búar eins og fram hefur komið. Þess í stað notar málnefndin nú mjög víða –menn (Andorramenn, Gambíumenn, Panamamenn) ellegar aðeins beygingarendingu (Bareinar). Stöku sinnum eru orðin mynduð með –ing–: Alsíringar, Fílabeinsstrendingar. Loks sækir liðurinn –verjar hér mjög í sig veðrið og má segja að það sé líka í samræmi við leiðbeiningar Árna Böðvarssonar. Auk heitanna Indverjar, Kínverjar, Pólverjar, Spánverjar, Ungverjar, Þjóðverjar í skránni 1974 komu í skránni frá 1994 fram heitin Ganverjar, Kúbverjar, Kýpverjar / Kípverjar, Maltverjar, Tongverjar. Ríkjaheitin Gana og Tonga eru hvorugkyns eins og Kína og því má segja að heitin Ganverjar og Tongverjar séu mynduð beinlínis með Kínverja að fyrirmynd. Ríkjaheitunum Kúbu (kv.) og Möltu (kv.) fylgja í skránni einnig, valfrjálst, heitin Kúbumenn og Möltumenn.
Eins og sjá má eiga íbúaheitin með –verjar það sameiginlegt að fyrri liður orðanna er ávallt einkvæður (eitt atkvæði). Hið sama á við í öðrum hliðstæðum orðum, sbr. Eyverji, Kremlverji, Rómverji, Spartverji, Víkverji, Þrakverji og virðist þetta vera almennt einkenni þessarar orðmyndunar í íslensku, sbr. bát(s)verji, dalverji, flugverji, skipverji.
Málnefndin uppfærði skrá sína árið 2005 og þar var í stórum dráttum áfram fylgt þeirri stefnu sem mörkuð hafði verið 1994. Íbúaheitin, eins og frá þeim var gengið af Íslenskri málnefnd 2005, er að finna í Stafsetningarorðabókinni (2006). Þá eru þau flest ef ekki öll einnig í Íslenskri orðabók (2007). Enn var listinn uppfærður árið 2015 í framhaldi af vinnu samstarfshóps um ríkjaheiti með fulltrúum utanríkisráðuneytis, Hagstofunnar, RÚV, Íslenskrar málnefndar og Árnastofnunar. Sjá Ríkjaheiti. Í viðbót við ríkjaheitin sjálf voru færð inn þau íbúaheiti, þjóðernislýsingarorð og tungumálaheiti sem fyrir liggja. Þar er, eins og áður, fyrst og fremst byggt á Stafsetningarorðabókinni (2. útg. 2016, á Málið.is) en við er bætt nýjum íbúaheitum þar sem ný ríki hafa verið stofnuð á síðustu árum: Suður-Súdani, Esvatínímaður, Norður-Makedóníumaður.
Heimildir- [Án höf.] 1974. Navne på stater. Nationalitetsbetegnelser. Dansk-færøsk-islandsk. Språk i Norden 1974:81-113.
- [Án höf.] 1994. Statsnavne og nationalitetsord. Maiden nimet ja vastaavat johdokset. Ríkjaheiti og þjóðernisorð. Ósló: Nordisk språksekretariat.
- Ari Páll Kristinsson. 2011. Ríkjaheiti og ritháttur. Fjöruskeljar. Afmælisrit til heiðurs Jónínu Hafsteinsdóttur sjötugri 29. mars 2011. Hallgrímur J. Ámundason, Guðrún Kvaran og Svavar Sigmundsson ritstj. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Bls. 1‒10.
- Árni Böðvarsson. 1992. Íslenskt málfar. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
- Árni Böðvarsson. 1987. Orðalykill. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
- Íslensk orðabók. 2007. Fjórða útgáfa byggð á 3. prentun frá 2005 með allnokkrum breytingum. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík: Edda.
- Stafsetningarorðabókin. 2006. Ritstjóri Dóra Hafsteinsdóttir. Rit Íslenskrar málnefndar 15. Reykjavík: JPV útgáfa. 2. útg. 2016. Ritstjóri Jóhannes B. Sigtryggsson. Rafræn útgáfa á www.malid.is.
- Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 2015. Ríkjaheiti. https://www.arnastofnun.is/is/rikjaheiti. (Sótt 9.04.2020).
- Veturliði G. Óskarsson. 2006. Af tveim tökuviðskeytum. Íslenskt mál 28: 79-93.
- File:Princess Swaziland 015.jpg - Wikipedia. (Sótt 9.04.2020).
- File:Roman mosaic- Love Scene - Centocelle - Rome - KHM - Vienna 2.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 9.04.2020).