Orðanefnd lækna hefur nýlega samþykkt að taka upp heitið kórónuveira fyrir þá fjölskyldu veira sem kallast á ensku coronavirus (ft. coronaviruses) en eldra heiti á henni var kransveira (Íðorðasafn lækna 1986). Heitið vísar í byggingu veirunnar en hún er hringlaga og út úr henni standa oddar og það minnir á kórónu.
Orðið kórónuveira er svokölluð eignarfallssamsetning þar sem fyrri liður orðsins er í eintölu (sbr. ef. et. kórónu). Stundum er hægt að mynda tvenns konar eignarfallssamsetningar af sama orði í fyrri lið samsetningar. Dæmi um þetta er til dæmis klukkuhljóð sem er myndað af eignarfalli eintölu af orðinu klukka og svo klukknahljóð af eignarfalli fleirtölu af sama orði.
Ekki eru mörg dæmi um samsett orð í íslensku með orðinu kóróna í fyrri lið en nefna má kórónugos, kórónugeil og kórónusjá sem eru íðorð í stjörnufræði.
Það má velta því fyrir sér hvort orðmyndin kórónaveira með fyrri liðinn kóróna- og sem er allalgeng sé eignarfallssamsetning þar sem fyrri liður orðsins er í fleirtölu. Það er þó ekki líklegt að svo sé raunin. Þegar skoðuð eru samsett orð þar sem fyrri liður hefur svipað hljóðafar og kóróna (til dæmis þríkvæðu orðin persóna, maskína, gardína sem enda einnig á -na) þá er eingöngu að finna orð mynduð með eignarfalli eintölu (til dæmis persónufrelsi, maskínuolía, gardínustöng).
Eðlilegra er því að líta á að fyrri liðurinn í kórónaveira sé óbeygt tökuorð frekar en eignarfallssamsetning rétt eins og í heitinu Kórónaföt sem var þekkt vörumerki á Íslandi fyrir nokkrum áratugum. Heimildir:- Ari Páll Kristinsson. (2004). Orðmyndun: Um leiðir til að auka íslenskan orðaforða. Smárit Íslenskrar málnefndar 3. Reykjavík: Íslensk málnefnd.
- Íðorðasafn lækna. English/Icelandic Medical Terminology. (1986). Orðanefnd læknafélaganna. Magnús Snædal ritstjóri. Reykjavík: Læknafélag Íslands.
- Þorsteinn Sæmundsson. (1996). Ensk-íslensk og íslensk-ensk orðaskrá úr stjörnufræði með nokkrum skýringum: Reykjavík: Háskólaútgáfan.
- File:SARS-CoV-2 49534865371.jpg - Wikipedia. (Sótt 19.03.2020).