Af hverju er regnbogi svona oft í akkúrat 180 gráðum?Form regnbogans ræðst af kúlulögun regndropa í loftinu og brotstuðli vatnsins. Brotstuðullinn segir til um hraða ljóssins í vatninu og stjórnar stefnubreytingu ljósgeisla sem fer úr lofti inn í vatnsdropann. Fyrir rautt ljós með öldulengd 650 nm er gildi brotstuðuls vatns n = 1,331, meðan blátt ljós í hinum enda sýnilega rófsins með öldulengd 450 nm hefur brotstuðul n = 1,337. Mynd 1 sýnir hvernig rauðir sólargeislar brotna við að fara inn í vatnsdropa, speglast á bakhlið dropans og brotna aftur við að fara út úr dropanum. Við þetta tvöfalda ljósbrot og eina speglun safnast rautt ljós frá sólu í nýjan geisla sem myndar hornið A=42° við stefnu til sólar. Stefnubreyting fyrir blátt ljós er tilsvarandi A=41°.

Mynd 1: Rauðir geislar í regnboganum hafa farið í gegnum tvö ljósbrot og eina speglun í regndropa á leið sinni frá sól til athuganda. Hornið á milli geisla frá sólu til regndropa og geisla þaðan til athuganda er 42°.

Mynd 2: Athugandi á jafnsléttu beitir verkfæri til að fylgja eftir boga regnbogans með því að snúa stönginni um langásinn, sem hefur stefnu til sólar. Úr myndinni má lesa að enginn regnbogi sést þegar sólarhæð er stærri en 42°, og að bogalengd regnbogans nær aðeins 180° við sólsetur og sólarupprás.
- AÓ.