Hver nefnir storma? Dæmi: Ciara, Dennis, Katrina og fleiri.Spyrjendur tiltaka sérstaklega þrjú nöfn, þau fyrstu tvö eru nöfn á lægðum eða óveðrum sem nýlega hafa verið í fréttum en Katrina var nafn á fellibyl. Fellibyljir myndast aðeins þar sem yfirborðshiti sjávar nær að minnsta kosti 26°C. Á norðurslóðum þar sem sjór er kaldari verða hins vegar til lægðir sem eru víðáttuminni og ekki eins krappar og fellibyljirnir. Fyrri óveðrin sem nefnd eru í spurningunni fá nafn sitt hjá Bresku veðurstofunni, þeirri írsku (Met Éireann) og Veðurstofu Hollands (KNMI - Koninklijk Nederlands Meteorologisch Instituut). Breska og írska veðurstofan fóru að gefa óveðrum nöfn árið 2015 og gat almenningur sent inn nöfnin. Tilgangurinn með þessu var meðal annars að vekja athygli almennings á ofsaveðrum og auðvelda umræðu um þau. Árið 2019 gekk Veðurstofa Hollands til liðs við hinar tvær. Nöfnin sem óveðrin hljóta eru í stafrófsröð og skiptast á kvenmannsnöfn og karlmannsnöfn. Í samræmi við nafngiftir fellibylja í Bandaríkjunum fá óveður ekki nöfn sem byrja á bókstöfunum Q, U, X, Y og Z.
- ^ Breska veðurstofan notar reyndar litaorðin yellow, amber, red fyrir sínar viðvaranir en Veðurstofa Íslands notar orðið appelsínugul í stað amber. Sjá: Weather warnings guide - Met Office. (Sótt 14.02.2020).
- UK Storm Centre - Met Office. (Sótt 14.02.2020).
- Why do storms get named? - BBC Weather. (Sótt 13.02.2020).
- File:Brendan 2020-01-13 0337Z.jpg - Wikipedia. (Sótt 14.02.2020).
- Hurricane Katrina. (Sótt 14.02.2020).