Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver gefur óveðri nafn?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Upprunalega spurningin var:

Hver nefnir storma? Dæmi: Ciara, Dennis, Katrina og fleiri.

Spyrjendur tiltaka sérstaklega þrjú nöfn, þau fyrstu tvö eru nöfn á lægðum eða óveðrum sem nýlega hafa verið í fréttum en Katrina var nafn á fellibyl. Fellibyljir myndast aðeins þar sem yfirborðshiti sjávar nær að minnsta kosti 26°C. Á norðurslóðum þar sem sjór er kaldari verða hins vegar til lægðir sem eru víðáttuminni og ekki eins krappar og fellibyljirnir.

Fyrri óveðrin sem nefnd eru í spurningunni fá nafn sitt hjá Bresku veðurstofunni, þeirri írsku (Met Éireann) og Veðurstofu Hollands (KNMI - Koninklijk Nederlands Meteorologisch Instituut).

Breska og írska veðurstofan fóru að gefa óveðrum nöfn árið 2015 og gat almenningur sent inn nöfnin. Tilgangurinn með þessu var meðal annars að vekja athygli almennings á ofsaveðrum og auðvelda umræðu um þau. Árið 2019 gekk Veðurstofa Hollands til liðs við hinar tvær. Nöfnin sem óveðrin hljóta eru í stafrófsröð og skiptast á kvenmannsnöfn og karlmannsnöfn. Í samræmi við nafngiftir fellibylja í Bandaríkjunum fá óveður ekki nöfn sem byrja á bókstöfunum Q, U, X, Y og Z.

Lægðin Brendan var önnur í röðinni á lista sem bresku, írsku og hollensku veðurstofurnar nota til að gefa lægðum nöfn.

Allar lægðir sem þykja líklegar til að hafa veruleg áhrif og gefa tilefni til appelsínugulra eða rauðra viðvarana[1] hjá fyrrnefndum veðurstofum fá nöfn eftir þessu kerfi. Lægðin Dennis fékk sitt nafn 11. febrúar 2020 og á undan henni komu lægðirnar Atiyah, Brendan og Ciara. Á eftir Dennis munu öflugar lægðir fá heitin Ellen, Francis og Gerda, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hægt er að sjá allan lægðalistann fyrir árin 2019/20 hér: UK Storm Centre - Met Office.

Bandaríska veðurstofan var fyrst til að taka upp á þeim sið að nefna fellibylji mannanöfnum eftir ákveðnu kerfi. Það var árið 1953 og í fyrstu voru aðeins kvenmannsnöfn notuð. Alþjóða veðurfræðistofnunin tók síðar að sér nafngiftirnar og árin 1978-1979 þótti ekki lengur við hæfi að kvengera alla fellibylji og því voru nöfn karla notuð til jafns við kvenmannsnöfnin. Sex listar með nöfnum eru notaðir yfir fellibylji á Atlantshafinu. Nöfnin sem eru notuð 2020 verða þess vegna næst notuð árið 2026. Hér er hægt að skoða nöfnin á listunum.

Leifar af fellibyljum sem verða að djúpum lægðum eftir að hafa farið yfir Atlantshafið halda því nafni sem fellibylurinn fékk og geta þá verið kallaðar „leifar af fellibylnum X“, þar sem X-ið er upprunalegt nafn fellibylsins.

Gervihnattamynd af fellibylnum Katrina, tekin 25. ágúst 2005.

Katrina sem spyrjendur nefna sérstaklega var fellibylur sem olli mikilli eyðileggingu í Bandaríkjunum í ágúst 2005. Rúmlega 1200 manns létu lífið þegar hann gekk yfir. Nöfn stórra fellibylja sem valda miklu eigna- og manntjóni eru ekki notuð aftur. Það á bæði við um fellibylinn Katrina og fellibylinn Dennis sem myndaðist í júlí 2005 og olli mestu manntjóni á Haítí. Þessi nöfn eru því ekki lengur notuð yfir fellibylji.

Tilvísun:
  1. ^ Breska veðurstofan notar reyndar litaorðin yellow, amber, red fyrir sínar viðvaranir en Veðurstofa Íslands notar orðið appelsínugul í stað amber. Sjá: Weather warnings guide - Met Office. (Sótt 14.02.2020).

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

14.2.2020

Spyrjandi

Eydís og Halldóra Káradætur

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hver gefur óveðri nafn?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2020, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78683.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2020, 14. febrúar). Hver gefur óveðri nafn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78683

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hver gefur óveðri nafn?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2020. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78683>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver gefur óveðri nafn?
Upprunalega spurningin var:

Hver nefnir storma? Dæmi: Ciara, Dennis, Katrina og fleiri.

Spyrjendur tiltaka sérstaklega þrjú nöfn, þau fyrstu tvö eru nöfn á lægðum eða óveðrum sem nýlega hafa verið í fréttum en Katrina var nafn á fellibyl. Fellibyljir myndast aðeins þar sem yfirborðshiti sjávar nær að minnsta kosti 26°C. Á norðurslóðum þar sem sjór er kaldari verða hins vegar til lægðir sem eru víðáttuminni og ekki eins krappar og fellibyljirnir.

Fyrri óveðrin sem nefnd eru í spurningunni fá nafn sitt hjá Bresku veðurstofunni, þeirri írsku (Met Éireann) og Veðurstofu Hollands (KNMI - Koninklijk Nederlands Meteorologisch Instituut).

Breska og írska veðurstofan fóru að gefa óveðrum nöfn árið 2015 og gat almenningur sent inn nöfnin. Tilgangurinn með þessu var meðal annars að vekja athygli almennings á ofsaveðrum og auðvelda umræðu um þau. Árið 2019 gekk Veðurstofa Hollands til liðs við hinar tvær. Nöfnin sem óveðrin hljóta eru í stafrófsröð og skiptast á kvenmannsnöfn og karlmannsnöfn. Í samræmi við nafngiftir fellibylja í Bandaríkjunum fá óveður ekki nöfn sem byrja á bókstöfunum Q, U, X, Y og Z.

Lægðin Brendan var önnur í röðinni á lista sem bresku, írsku og hollensku veðurstofurnar nota til að gefa lægðum nöfn.

Allar lægðir sem þykja líklegar til að hafa veruleg áhrif og gefa tilefni til appelsínugulra eða rauðra viðvarana[1] hjá fyrrnefndum veðurstofum fá nöfn eftir þessu kerfi. Lægðin Dennis fékk sitt nafn 11. febrúar 2020 og á undan henni komu lægðirnar Atiyah, Brendan og Ciara. Á eftir Dennis munu öflugar lægðir fá heitin Ellen, Francis og Gerda, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hægt er að sjá allan lægðalistann fyrir árin 2019/20 hér: UK Storm Centre - Met Office.

Bandaríska veðurstofan var fyrst til að taka upp á þeim sið að nefna fellibylji mannanöfnum eftir ákveðnu kerfi. Það var árið 1953 og í fyrstu voru aðeins kvenmannsnöfn notuð. Alþjóða veðurfræðistofnunin tók síðar að sér nafngiftirnar og árin 1978-1979 þótti ekki lengur við hæfi að kvengera alla fellibylji og því voru nöfn karla notuð til jafns við kvenmannsnöfnin. Sex listar með nöfnum eru notaðir yfir fellibylji á Atlantshafinu. Nöfnin sem eru notuð 2020 verða þess vegna næst notuð árið 2026. Hér er hægt að skoða nöfnin á listunum.

Leifar af fellibyljum sem verða að djúpum lægðum eftir að hafa farið yfir Atlantshafið halda því nafni sem fellibylurinn fékk og geta þá verið kallaðar „leifar af fellibylnum X“, þar sem X-ið er upprunalegt nafn fellibylsins.

Gervihnattamynd af fellibylnum Katrina, tekin 25. ágúst 2005.

Katrina sem spyrjendur nefna sérstaklega var fellibylur sem olli mikilli eyðileggingu í Bandaríkjunum í ágúst 2005. Rúmlega 1200 manns létu lífið þegar hann gekk yfir. Nöfn stórra fellibylja sem valda miklu eigna- og manntjóni eru ekki notuð aftur. Það á bæði við um fellibylinn Katrina og fellibylinn Dennis sem myndaðist í júlí 2005 og olli mestu manntjóni á Haítí. Þessi nöfn eru því ekki lengur notuð yfir fellibylji.

Tilvísun:
  1. ^ Breska veðurstofan notar reyndar litaorðin yellow, amber, red fyrir sínar viðvaranir en Veðurstofa Íslands notar orðið appelsínugul í stað amber. Sjá: Weather warnings guide - Met Office. (Sótt 14.02.2020).

Heimildir:

Myndir:

...