Af salur (< *sali-z) er forn víxlmynd *salaz-/*saliz- (es/os-st.) og orðið salerni kynni að vera af henni leitt < *salaz-i-īna- eða *salaz-n-ia-, en hvorug myndin kemur vel heim hljóðfræðilega; í fyrra tilvikinu er erfitt að skýra i-endinguna og í því síðara hefði mátt búast við samlögun~zn. [* merkir að orðmyndin er endurgerð].Stefán Karlsson, fyrrum forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, skrifaði stutta grein 1992 um salerni í afmælisrit til Árna Björnssonar þjóðháttafræðings. Hann telur orðið ekki eiga sér frumnorrænar rætur meðal annars vegna þess að það þekkist ekki í öðrum norrænum málum. Það komi ekki heldur fyrir í ritum sem geti salerna. Stefán bendir á að Salerni sé nefnt í íslenskum ritum í annarri merkingu en ‘klósett’. Þar sé um borgarheiti að ræða en um hana sagði Nikulás ábóti á 12. öld að þar væru „læknar bestir“. Stefán lýkur greininni á þessum orðum:
Lang-líklegast þykir mér því að ‘salerni’ sé tökuorð eins og ‘kvaterni’ og ‘taferni’[1] og að hér sé í raun á ferðinni nafnið á heilsustöðinni Salerni. Öllum hefur verið til heilsubótar að ganga til salernis og ‘hægja sér’, ekki síst þeim sem hafa haft kveisu eða leitað sér búkhreinsunar í samræmi við Salernisfræði. Til þess að hreinsa meltingarfærin vóru notaðar ýmiss konar ‘lausnarlækningar’, og margar slíkar eru taldar upp í íslensku lækningabókinni í Dyflinnu í kafla sem einmitt á rætur að rekja til Antidotarium Nicolai, helsta lyfjatals Salerniskólans. (1992:102)Tilvísun:
- ^ Kvaterni ‘kver’, taferni ‘greiðasölustaður’.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. - Orðsifjabókin er einnig aðgengileg á arnastofnun.is undir Málið.is.
- Stefán Karlsson. 1992. Salerni. Í: Dagamunur gerður Árna Björnssyni sextugum 16. janúar 1992. Bls. 98–102. Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen, Reykjavík.
- Rosa Menkman. Duchamp Fountain, 1917/1964; glazed ceramic with black pai… | Flickr. (Sótt 24.04.2020). Myndin er birt undir leyfinu CC BY 2.0.