Enn um orð sem aðeins heyrast í orðasamböndum: Hver/hvað er þessi „þaula“ sem menn spyrja stundum í? Hér er ekki einu sinni ljóst hvaða kyn þetta orð er, hvað þá fallbeyging,....ef þetta er á annað borð nafnorð yfirhöfuð!Karlkynsorðið þauli merkir ‘eitthvað síendurtekið og ruglingslegt, bobbi, síklifun’ og beygist eftir veikri beygingu karlkynsorða. Sömu merkingu hefur einnig kvenkynsorðið þaul. Sögnin að þaulast er notuð um að vera lengi að einhverju, þumbast við. Orðasambandið í þaula merkir ‘að gera eitthvað rækilega, í sífellu’, til dæmis spyrja einhvern í þaula, kynna sér eitthvað í þaula. Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989:1172) eru nefnd tengsl við nýnorska orðið taul ‘flón’ og sögnina tyla ‘eyða tímanum, slóra, masa’ og tyla í sænskri mállýsku í merkingunni ‘vera lengi að hafa sig að einhverju’. Samsetningar með þaul- að fyrri lið eru allalgengar til dæmis í orðunum þaullesinn ‘mjög vel lesinn’, þaulsætinn ‘sá sem situr lengi (oft til ama)’, þaulvanur ‘mjög vanur einhverju’ og fleira. Heimild og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. - Orðsifjabókin er einnig aðgengileg á arnastofnun.is undir Málið.is.
- Höfundur óþekktur. Lunch atop skyscraper. Sótt 18.03.20 af Wikimedia Commons og birt með 'Public domain' leyfinu.