Í hvaða hæð frá jörðu er vindhraði mældur? Skiptir máli í hvaða hæð hann er mældur?Vindhraði er að jafnaði mældur í 10 metra hæð yfir jörðu og er það í samræmi við reglur Alþjóðaveðurfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það kostar töluvert að koma vindhraðamæli upp í 10 metra hæð og þess vegna mæla margir vindinn nær jörðu. Algengt er til dæmis að vindhraðamælar Vegagerðarinnar séu í 6-7 metra hæð yfir umhverfi mælisins. Almennt gildir að vindhraði minnkar eftir því sem nær dregur jörðu. Um það gildir jafnan $$Uz = \frac{u_*}{\kappa} \ln \left( \frac{z}{z_0} \right) $$ Þar sem Uz er vindhraði í hæðinni z, U* er svokallaður viðnámsvindur, k er 0,4, z er hæð yfir jörð og z0 er svokallað hrýfi (e. surface roughness). Hrýfið er háð yfirborðsgerð landsins og er víða 2-4 cm yfir móum og melum á Íslandi, en sjá má ýmis hrýfisgildi í töflu í heimildaskrá. Ef vindur er þekktur í hæðinni z má nota jöfnuna að ofan til að reikna viðnámsvindinn. Til að reikna vindhraða í nýrri hæð er gert ráð fyrir að viðnámsvindur sé fasti.

Vindhraði er að jafnaði mældur í 10 metra hæð yfir jörðu og er það í samræmi við reglur Alþjóðaveðurfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna. Almennt gildir að vindhraði minnkar eftir því sem nær dregur jörðu, þess vegna eru lítil börn að jafnaði í minni vindi en fullorðnir.
Heimild og ítarefni:
- Tafla sem sýnir gildi á hrýfi (z0): Typical values of surface roughness length Z0. (Sótt 28.05.2024).
- 2022 State of Climate Services: Energy. (Sótt 28.05.2024).