Hvað má reikna með að 1% atvinnuleysi þýði margra milljarða króna minni tekjur fyrir þjóðarbúið?Þessari spurningu reyndi bandaríski hagfræðingurinn Arthur Okun (1928-1980) að svara um bandaríska hagkerfið árið 1962 í skýrslu sinni Potential GNP: It's measurement and significance. Niðurstaða hans var sú að fyrir hvert viðbótarprósent sem landsframleiðslan ykist um minnkaði atvinnuleysi um 0,3%. Seinni tíma mælingar benda til þess að viðbrögð bandaríska hagkerfisins séu næmari fyrir hagvaxtarbreytingum en þegar Okun framkvæmdi sínar mælingar, eða um 0,5% atvinnuleysislækkun fyrir hvert viðbótar hagvaxtarstig. Eins og kemur fram á blaðsíðu 68 í riti Fjármálaráðuneytisins frá árinu 2009: Úr Þjóðarbúskapnum, benda íslenskar rannsóknir til þess að fyrir hvert prósent hagvaxtar minnki atvinnuleysi um 0,2%. Til að minnka atvinnuleysi um 1% þyrfti þá samkvæmt þessum útreikningum að auka hagvöxt um 5 prósentustig. Þetta er umtalsvert meira en myndi gilda fyrir bandaríska hagkerfið þar sem 2% hagvöxtur tengist 1% lækkun atvinnuleysis.

Lögmál Okuns á Íslandi 1988-2006. Línan á myndinni er fengin með jöfnunni efst í vinstra horni myndarinnar. Jafnan gefur til kynna að fyrir hvert stig hagvaxtar dregur úr atvinnuleysi sem hlutfall af vinnuafli um rúm 0,2%.
- Fjármálaráðuneytið. (2009). Úr Þjóðarbúskapnum – rammagreinar og viðaukar, 68. (Sótt 7.1.2020).